Fótbolti

Kristianstad taplaust í níu leikjum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðný Árnadóttir stóð vaktina í vörn Kristianstad sem hélt hreinu gegn Häcken.
Guðný Árnadóttir stóð vaktina í vörn Kristianstad sem hélt hreinu gegn Häcken. vísir/hulda margrét

Allir þrír Íslendingarnir hjá Kristianstad voru í byrjunarliðinu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Guðný Árnadóttir, Katla Tryggvadóttir og Hlín Eiríksdóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad sem hefur staðið sig vel á tímabilinu, því fyrsta í fimmtán ár þar sem Elísabet Gunnarsdóttir er ekki við stjórnvölinn.

Hlín hefur verið í miklu stuði að undanförnu en henni tókst ekki að skora í dag, ekki frekar en öðrum leikmönnum á vellinum. Ekki vantaði tækifærin en liðin áttu samtals nítján skot á mark í leiknum.

Kristianstad er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig. Liðið er taplaust í síðustu níu leikjum.

Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir voru báðar í byrjunarliði Växjö sem laut í lægra haldi fyrir Linköping, 2-1. Bryndís og Þórdís voru teknar af velli í seinni hálfleik.

Þetta var þriðja tap Växjö í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 10. sæti deildarinnar með fjórtán stig.

Þá gerði Örebro markalaust jafntefli við Vittsjö. Katla María Þórðardóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir voru í byrjunarliði Vittsjö en Bergþóra Sól Ásmundsdóttir sat allan tímann á bekknum.

Örebro er í þrettánda og næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×