Fótbolti

Kea­ne um Main­oo: „Er að gera hluti sem tók mig tíu ár að læra“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kobbie Mainoo hefur tekist að heilla Roy Keane, eitthvað sem gerist ekki oft.
Kobbie Mainoo hefur tekist að heilla Roy Keane, eitthvað sem gerist ekki oft. Vísir/Getty Images

Hinn írski Roy Keane, fyrrverandi miðvallarleikmaður Manchester United, hélt vart vatni yfir frammistöðu Kobbie Mainoo á miðri miðju Englands þegar liðið marði Slóvakíu í 16-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu sem nú fer fram í Þýskalandi.

England var hársbreidd frá því að falla úr leik á EM en þökk sé snilli Jude Bellingham tókst Englandi að komast í framlengingu þar sem Harry Kane gekk frá þreyttum Slóvökum. Það var hins var annar leikmaður sem vakti athygli Roy Keane en þessi geðþekki Íri er meðal þeirra sem fjallar um mótið ITV.

Hinn 19 ára gamli Mainoo var einn af fáum ljósum punktum í liði Man United á leiktíðinni. Eftir að meiðast í upphafi leiktíðar kom hann inn af krafti og tryggði sér á endanum sæti í enska landsliðinu.

Eftir dapra frammistöðu liðsins í riðlakeppninni ákvað Gareth Southgate, þjálfari liðsins, að setja Mainoo við hlið Declan Rice á miðri miðjunni gegn Slóvakíu. Þó svo að enska liðið hafi áfram spilað hægan og fyrirsjáanlegan fótbolta þá gat Keane ekki annað en hrósað Mainoo eftir leik.

„Við sjáum hvað hann er að gera, ég spilaði í þessari stöðu en hann er að gera hluti sem tók mig tíu ár að læra,“ sagði Keane og hélt áfram.

„Hann hefur fengið góðan grunn hjá Man United. Þegar þú spilar fyrir Man Utd eru allir leikir stórleikir svo hann mun standast pressuna (sem fylgir því að spila með Englandi).“

England mætir Sviss í 8-liða úrslitum EM þann 6. júlí næstkomandi.


Tengdar fréttir

„Vorum að hugsa um að taka Bellingham út af“

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að hann hafi verið að hugsa um að taka Jude Bellingham af velli stuttu áður en hann bjargaði enska liðinu með fallegri hjólhestaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×