Körfubolti

„Að­dá­endur liðsins munu kynnast mínum gríska anda og orku“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dimitrios Klonaras mun spila í Subway-deild karla í vetur.
Dimitrios Klonaras mun spila í Subway-deild karla í vetur. Cal State East Bay

Álftanes hefur sótt gríska framherjann Dimitrios Klonaras fyrir komandi tímabil í Subway-deild karla í körfubolta. Hann á að baki farsælan háskólaferil í Bandaríkjunum.

Klonaras er um tveir metrar á hæð og er sagður „fjölhæfur framherji“ í tilkynningu félagsins. Hann hefur spilað fjölda leikja fyrir yngri landslið Grikklands og verið einn af betri leikmönnum D2-deildarinnar í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, var hann til að mynda valinn í stjörnuleik deildarinnar.

„Ég er ákaflega spenntur að hefja atvinnumannaferil minn á Álftanesi. Ég hef aldrei komið til Íslands og er nokkuð viss um að það verði ný lífsreynsla fyrir mig, hafandi búið í Grikklandi og Kaliforníu. En ég hef heyrt frábæra hluti um landið og get ekki beðið,“ segir Klonaras um komu sína hingað til lands.

„Aðdáendur liðsins munu kynnast mínum gríska anda og orku. Ég er mjög kappsamur og legg mikið á mig

svo lið mitt geti unnið leiki.“

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari liðsins, er spenntur fyrir nýjustu viðbótinni: 

„Dimitrios er virkilega fjölhæfur leikmaður sem við teljum að muni smellpassa inn í leikstílinn okkar og leikmannahópinn. Hann hlaut frábært uppeldi í körfubolta, kemur úr sterku yngri flokka starfi í Grikklandi og hefur gert góða hluti í Bandaríkjunum síðustu fimm árin. Þetta eru sannkallaðar gleðifréttir, að hann sé orðinn Álftnesingur.“

Álftanes endaði í 6. sæti Subway-deildar karla í körfubolta og féllu út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir tap gegn Keflavík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×