Fótbolti

Hinn full­komni leikur hjá Nico Willi­ams

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lamine Yamal og Nico Williams hafa verið tveir af skemmtilegri leikmönnum EM til þessa.
Lamine Yamal og Nico Williams hafa verið tveir af skemmtilegri leikmönnum EM til þessa. Alex Grimm/Getty Images

Segja má að Nico Williams hafi í raun átt hinn fullkomna leik þegar Spánn tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu með 4-1 sigri á Georgíu. 

Hinn 21 árs gamli Williams og hinn 16 ára gamli Lamine Yamal hafa verið tvær skærustu stjörnur EM til þessa. Þeim er stillt upp á sitthvorum vængnum í annars sóknarsinnuðu leikkerfi Spánar og hafa hreinlega blómstrað það sem af er móti. 

Báðir voru upp á sitt besta gegn Georgíu og þó Yamal hafi ef til vill stolið fyrirsögnunum þar sem hann er ekki orðinn nægilega gamall til að keyra bíl þá var Williams hreint út sagt magnaður í sigri Spánar í 16-liða úrslitum. 

Williams lagði upp jöfnunarmark Spánverja og skoraði svo þriðja markið sem gulltryggði sigurinn, þá rötuðu allar 46 sendingar hans á samherja ásamt því að hann bjó til  fjögur færi fyrir samherja sína, fór þrívegis framhjá leikmanni Georgíu og átti tíu snertingar inn í vítateig mótherjans.

Spánverjar mæta Þýskalandi í 8-liða úrslitum og þarf Williams að eiga jafn góðan ef ekki betri leik ætli hann sér að fara í gegnum heimamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×