Í ár eru umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs veitt fyrir sjálfbæra byggingastarfsemi með áherslu á umbreytandi (einnig kallað aðlögunarhæfa) endurunna byggingarlist og endurnýjanlega byggingastarfsemi.
Byggingarframkvæmdir valda um 40% af losun koltvísýrings á heimsvísu, sem er ósjálfbær tala á tímum aukinnar eftirspurnar eftir byggingum.
Tilkynnt verður um hver hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2024 í haust en verðlaunin verða afhent á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Verðlaunahafinn hlýtur Nordlys-styttuna og 300.000 danskar krónur.
„Með frumkvöðla hugsun og þverfaglegt samstarf hefur Arnhildur Pálmadóttir veitt innblástur og hvatt til breytinga í borgarskipulagi, arkitektúr og byggingaframkvæmda. Í verkefnum sínum fókuserar hún á endurvinnanlegt byggingaefni og sjálfbærni bygginga til framtíðar,“ segir um tilnefninguna.
Arnhildur er arkitekt sem leggur áherslu á samþættingu og lausnir á ólíkum þáttum verkefna með áherslu á langtímanotkun. Arnhildur rekur íslenska útibú danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrásarfræði í byggingariðnaði. Hún kennir einnig við hönnunardeild Listaháskóla Íslands, hefur skrifað greinar og texta tengda nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og byggingariðnaði og haldið fyrirlestra um efnið.
Arnhildur hefur hannað byggingar með helmingi minna kolefnisspor en hefðbundnar byggingar. Hún rannsakar möguleika á að stjórna virku hraunflæði í form til að skapa byggingar, hún notar LCA markvisst sem ákvörðunartæki í öllu hönnunarferlinu, hannar með hringrásarfræði í huga og með áherslu á að skapa tækifæri til að lifa sjálfbærari lífsstíl.