Fótbolti

Óskar Hrafn ráðinn yfir­maður knattspyrnumála hjá KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson er kominn aftur í KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er kominn aftur í KR. vísir/vilhelm

KR hefur ráðið Óskar Hrafn Þorvaldsson sem yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Hann tekur formlega til starfa um næstu mánaðarmót.

Þann 10. júní greindi KR frá því að Óskar hefði verið ráðinn til starfa hjá knattspyrnudeild KR, meðal annars við að „veita þjálfurum og starfsmönnum deildarinnar faglega ráðgjöf og vinna að endurskipulagningu deildarinnar,“ eins og sagði í tilkynningu frá félaginu.

Yfirmaður knattspyrnumála er nýtt starf hjá KR en Rúnar Kristinsson gegndi því hjá félaginu á árunum 2008-09.

Óskar er uppalinn KR-ingur og lék með liðinu á árunum 1991-97. Hann þjálfaði seinna yngri flokka hjá KR.

Óskar þjálfaði Gróttu á árunum 2018 og 2019 og kom liðinu upp um tvær deildir. Hann tók svo við Breiðabliki haustið 2019 og stýrði liðinu þar til síðasta haust. 

Undir stjórn Óskars varð Breiðablik Íslandsmeistari 2022 og komst í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fyrra. Óskar tók svo við Haugesund í Noregi síðasta haust en hætti þar í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×