Miðvörðurinn Merih Demiral skoraði bæði mörk Tyrkja í sigrinum gegn Austurríki í 16-liða úrslitum en samkvæmt þýska blaðinu Bild hefur UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, nú ákveðið að dæma hann í tveggja leikja bann.
Bannið fær Demiral fyrir að fagna marki með því að gera „úlfatákn“ með höndunum, en um er að ræða tákn Gráúlfanna, hóps öfgaþjóðernissinna í Tyrklandi.
Það að gera svona tákn, eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt, hefur til að mynda verið bannað með lögum í Austurríki, frá árinu 2019. Brot á þeim lögum varða sekt upp á allt að 4.000 evrum, eða 600.000 krónum.
Ef marka má frétt Bild missir Demiral nú af leiknum við Holland á laugardaginn og einnig af undanúrslitaleik í næstu viku, takist Tyrkjum að slá út Hollendinga.
Bild segir að ákvörðun UEFA sé í samræmi við það þegar Albananum Arlind Daku var refsað með tveggja leikja banni fyrir að taka þátt í rasískum söngvum stuðningsmanna eftir 2-2 jafntefli við Króatíu.
Jude Bellingham, leikmanni enska landsliðsins, var einnig refsað fyrir að fagna með ósæmilegum hætti eftir mark sitt gegn Slóvakíu en fékk þó ekki bann heldur aðeins sekt, upp á 20.000 evrur.