Ronaldo fékk sinn skerf af gagnrýni vegna viðbragða sinna, eftir að Jan Oblak varði vítaspyrnu hans í lok fyrri hluta framlengingar. Þótti mörgum táraflóðið, þegar leiknum var enn hvergi nærri lokið, til marks um sjálfselsku en Silva er ekki sammála því.
Vítaklúðrið kom ekki að sök og Ronaldo skoraði svo úr fyrstu spyrnu Portúgals í vítaspyrnukeppninni, þar sem liðið vann öruggan sigur þökk sé markverðinum Diogo Costa.
Silva var spurður út í viðbrögð Ronaldos, á blaðamannafundi í dag, og sýndi þeim fullan skilning:
„Við erum mannlegir og hann var tilfinningasamur eftir að vítaspyrnan klikkaði. Það er ásættanlegt, er það ekki? Stundum bregst maður við með hætti sem maður bjóst ekki við. Honum fannst að hann hefði getað gert betur á þessu augnabliki,“ sagði Silva og benti á að vítaspyrna Ronaldos hefði verið mjög góð, líkt og markvarsla Oblaks.
„Síðan grætur hann í smástund, líkt og manneskjur gera stundum þegar þær eiga við tilfinningar sínar. Svo mér finnst engin ástæða vera fyrir fólk til að tala um þetta en auðvitað gerir fólk það samt, því þannig er bransinn,“ sagði Silva.
Eftir að hafa þurft að fara alla leið í vítaspyrnukeppni til þess að slá út Slóveníu hefur lið Portúgals fengið sinn skerf af gagnrýni, í aðdraganda stórleiksins við Frakka í dag.
„Við skiljum það alveg. Það fylgir þessu. Þess vegna þénum við svona mikinn pening og getum gefið fjölskyldu okkar og vinum betra líf. Við kvörtum ekki yfir gagnrýni, hún getur verið góð og slæm. Þetta fylgir starfinu,“ sagði Silva og bætti við:
„Þegar júní rennur upp og það er EM eða HM í gangi þá halda allir að þeir séu knattspyrnustjórar. Við skiljum það alveg og sættum okkur við það.“