Erlent

Beryl lék Mexíkó grátt

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Hurricane "Beryl" - Mexico
Getty

Fellibylurinn Beryl gekk yfir Júkatanskagan í Mexíkó í gær og í nótt eftir að hafa valdið umfangsmikilli eyðileggingu víðs vegar um Karabíahafið og að minnsta kosti tíu dauðsföllum.

Hæst fór hraði vindhviða í Mexíkó upp í 175 kílómetra á klukkustund. Gríðarlega mikil rigning fylgdi fellibylnum og þá sérstaklega á vinsælum ferðamannastöðum eins og í Cancún og Tulum. Fréttastofa BBC greinir frá.

Rafmagnsleysi víða

Ekkert stórfellt tjón eða mannslát hefur verið tilkynnt vegna fellibylsins en sterkar vindhviðurnar felldu tré og ollu rafmagnsleysi víða. 

Viðbragðsaðilar á svæðinu hafa lofað því að íbúar á svæðinu muni fá rafmagn aftur á fyrir morgundaginn. Áður en Beryl lenti á Mexíkó voru þó nokkrar ráðstafanir gerðar en skólum var lokað, það var lokað fyrir glugga og neyðarskýli sett upp á stöðum þar sem búist var við mestu áhrifunum vegna fellibylsins.

300 flugferðum aflýst eða frestað

Nokkur hundrað ferðamenn neyddust til að yfirgefa hótelin sem þeir dvöldu á en samkvæmt tilkynningu frá yfirvöldum flúðu um þrjú þúsund ferðamenn frá Holbox-eyju rétt fyrir utan meginland Mexíkó. Meira en 300 flugferðum var frestað eða aflýst. 

Búist er við því að fellibylurinn muni nú ferðast yfir Mexíkóflóa og verði kominn í Texas-ríki í Bandaríkjunum snemma á mánudaginn. Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, hefur hvatt íbúa á svæðinu til að gera nauðsynlegar ráðstafanir áður en að fellibylurinn lendir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×