Fótbolti

„Fyrst og fremst á­nægð ef ég fæ að vera inni á vellinum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Arnardóttir hefur unnið fimmtán leiki í röð í sænska boltanum.
Guðrún Arnardóttir hefur unnið fimmtán leiki í röð í sænska boltanum. Vísir/einar

„Við verðum að vera rosalega sterkar varnarlega og sterkar inni í teignum líka. Þær munu koma með mikið af fyrirgjöfum inn í teig. Svo verðum við að þora að halda í boltann til þess að freista þess að skora,“ segir Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í gær.

 Liðið mætir Þjóðverjum á Laugardalsvelli í undankeppni Evrópumótsins í Sviss á næsta ári annað kvöld.

Guðrún hefur verið bakvörður í íslenska landsliðinu undanfarna leiki. Hún er aftur á móti að upplagi miðvörður.

„Þetta er vissulega aðeins öðruvísi en mér finnst ég vera vaxa inn í bakvarðarhlutverkið þó ég hafi verið að skipta á milli hægri og vinstri. En ég er fyrst og fremst ánægð ef ég fæ að vera inni á vellinum og reyni að leysa það eins vel og ég get hverju sinni.“

Guðrún er leikmaður Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liðið situr nú í efsta sæti deildarinnar eftir fimmtán umferðir. Liðið hefur einfaldlega unnið alla leikina á tímabilinu og er með fullt hús stiga, eða 45 stig.

„Þetta er búið að vera rosalegt tímabil og ótrúlega skemmtilegt. Það er búið að ganga svo vel. Svo ég er alveg til í að halda áfram að vinna hérna á föstudaginn.“

Klippa: „Fyrst og fremst ánægð ef ég fæ að vera inni á vellinum“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×