Innlent

Loft­belgur frá NASA svífur yfir Austur­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Belgurinn tókst á loft frá Kiruna í Svíþjóð í gærmorgun.
Belgurinn tókst á loft frá Kiruna í Svíþjóð í gærmorgun. NASA

Loftbelgur hefur sést svífa í háloftunum yfir Austurlandi í dag og margar kenningar hafa fæðst um hvaða fljúgandi furðuhlutur þetta sé. Sumir hafa haldið að um sé að ræða kínverskan eða rússneskan njósnabelg en aðrir einkennilega blöðrulaga ský. Sannleikurinn er sá að belgurinn er rannsóknarloftbelgur frá bandarísku heimvísindastofnuninni NASA.

Belgnum var sleppt í Kiruna í norðanverðri Svíþjóð í gær og á langt ferðalag fyrir höndum alla leið yfir Norður-Atlantshafið til Kanada.

Belgurinn er hluti af verkefninu Sweden Long-Duration Scientific Balloon Campaign sem myndi útsetjast yfir á íslensku sem Svíþjóðar langvarandi rannsóknarloftbelgsverkefnið. Fjórum stærðarinnar blöðrum hefur verið sleppt frá Kiruna sem bera hin og þessi rannsóknarverkefni.

Í belgnum sem er um þessar mundir á flugi meðfram norðurströnd Íslands er búnaður á vegum SUNRISE-III-verkefnisins. Það er eins konar stjörnustöð sem tekur myndir af lögum sólarinnar í hárri upplausn. Henni er ætlað að mæla segulsvið, hitastig og fleira á sólinni. Kjörið að taka myndir af slíku hér við heimskautamörkin þar sem sólin skín stærstan hluta sólarhringsins.

Meira má lesa um verkefnið á heimasíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar.

Belgurinn tókst á loft snemma í gærmorgun og hægt er að fylgjast með för hans um norðurslóðir með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×