Fótbolti

Hafa aldrei skorað hjá Þjóð­verjum á Laugar­dals­vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna hér markinu sem Hlín Eiriksdóttir skoraði í fyrri leiknum við þær þýsku sem var spilaður út í Þýskalandi.
Íslensku stelpurnar fagna hér markinu sem Hlín Eiriksdóttir skoraði í fyrri leiknum við þær þýsku sem var spilaður út í Þýskalandi. Getty/Marco Steinbrenner/

Íslenska kvennalandsliðið tekur í dag á móti Þýskalandi í undankeppni EM en leikurinn er spilaður á Laugardalsvellinum og hefst klukkan 16.15. Þar hafa þær þýsku kunnað vel við sig í gegnum tíðina.

Þetta er næstsíðasti leikur liðanna í undankeppni EM 2025 en þýska liðið er þegar búið að tryggja sér sæti á EM. Íslensku stelpunum vantar þrjú stig í viðbót sem geta komið í hús í dag eða í lokaleiknum út í Póllandi.

Íslenska landsliðið hefur hins vegar tapað öllum sex heimaleikjum sínum á móti Þýskalandi i gegnum tíðina. Að auki hefur íslenska liðið aldrei skorað hjá Þjóðverjum í fjórum leikjum þjóðanna á Laugardalsvellinum. Markatalan í Laugardalnum er 12-0, þýska liðinu í vil.

Eina mark Íslands á heimavelli á móti Þýskalandi skoraði Katrín Eiríksdóttir í 4-1 tapi á Kópavogsvellinum 27. júlí 1986. Síðan eru liðin tæp 38 ár. Íslensku stelpurnar hafa nú leikið í 453 mínútur á heimavelli á móti Þjóðverjum án þess að skora mark.

Íslenska kvennalandsliðið hefur aftur á móti unnið einn útileik á móti Þýskalandi og skorað sex mörk á útivelli á móti Þjóðverjum. Nú síðast skoraði Hlín Eiríksdóttir í 3-1 tapi í fyrri leik þjóðanna í þessari undankeppni.

Það er því heldur betur kominn tími á það að finna leiðina í þýska markið á íslenskri grundu og vonandi tekst okkar konum að enda þessa löngu bið í dag.

  • Leikir Ísland og Þýskalands á Laugardalsvelli:
  • 30. júlí 1986: Þýskaland vann 5-0
  • 18. september 1996: Þýskaland vann 3-0
  • 1. september 2018: Þýskaland vann 2-0
  • 31. október 2023: Þýskaland vann 2-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×