Upp­gjörið: Ís­land - Þýska­land 3-0 | Stelpurnar rúlluðu yfir Þýska­land og eru á leiðinni á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar marki sínu vel og innilega með liðsfélögum sínum. 
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar marki sínu vel og innilega með liðsfélögum sínum.  Vísir/Anton Brink

Ísland vann ævintýralegan 3-0 sigur gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli. Frammistaða liðsins var stórkostleg og íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er á leiðinni á EM 2025. 

Það var góð orka í íslenska liðinu og strax á fyrstu mínútu fékk Sveindís Jane Jónsdóttir gott færi. Sveindís stakk Söru Doorsoun af og náði skoti vinstra megin í teignum en boltinn sleikti stöngina.

Víkingaklappið fræga var nýlokið þegar Ísland komst yfir á 14. mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tók hornspyrnu sem fór í öxlina á Sveindísi Jane og Ingibjörg Sigurðardóttir var fyrst að skalla boltann í markið. Draumabyrjun fyrir Ísland.

Eftir að Ísland komst yfir fengu Þjóðverjar nokkur færi til þess að jafna. Færi gestanna komu flest upp úr misskilningi milli varnar og miðju íslenska liðsins en allt kom fyrir ekki.

Hættulegasta færi Þýskalands kom í blálokin. Nicole Anyomi renndi boltanum fyrir markið og Lea Schüller tæklaði boltann á markið en Fanney Inga Birkisdóttir sýndi frábær viðbrögð og varði.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Lea Schüller en flaggið fór á loft. Þetta var ansi vafasamt og að öllum líkindum átti markið að standa en við kvörtum ekki og Ísland var 1-0 yfir í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Alexandra Jóhannsdóttir annað mark Íslands. Sveindís Jane gerði frábærlega í að komast inn í sendingu sem átti að fara á Merle Frohms, markmann Þýskalands, Sveindís gaf boltann á Alexöndru sem lét vaða fyrir utan teig og skoraði stórkostlegt mark.

Fyrirliði Íslands, Glódís Perla Viggósdóttir, átti sitt augnablik eftir klukkutíma leik þegar hún bjargaði á línu eftir að Lea Schüller skallaði boltann yfir Fanneyju og boltinn var á leiðinni inn en fyrirliðinn var á öðru máli og sópaði boltanum frá markinu á síðustu stundu.

 

Á 83. mínútu innsiglaði Sveindís Jane sigurinn með því að skora þriðja mark Íslands. Sveindís komst inn í sendingu inni í vítateig gestanna og skoraði.

 

Niðurstaðan ótrúlegur 3-0 sigur Íslands og stelpurnar okkar á leiðinni á EM 2025.

Atvik leiksins

Markvarsla Fanneyjar Ingu Birkisdóttur undir lok fyrri hálfleiks af stuttu færi var frábær. Fanney var vel staðsett og fljót að hugsa sem gerði það að verkum að Ísland fékk ekki á sig mark í fyrri hálfleik.

Stjörnur og skúrkar

Ingibjörg Sigurðardóttir kom Íslandi yfir með laglegum skalla eftir hornspyrnu. Ingibjörg var einnig öflug í vörninni og barðist eins og ljón.

Sveindís Jane Jónsdóttir er stjarnan í þessu liði og lét verkin tala í dag. Sveindís hljóp úr sér lungun og barðist fyrir hvern einasta bolta. Sveindís átti þátt í öllum mörkum Íslands, í öðru markinu vann hún boltann og átti stoðsendinguna á Alexöndru Jóhannsdóttur. Sveindís kórónaði síðan frábæran leik með því að skora þriðja markið.

Það má eflaust finna skúrka í þýska liðinu en við erum á leiðinni á EM og það er það eina sem skiptir máli.

Dómarinn [5]

Dómari leiksins var Cheryl Foster og hún er frá Wales. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Lea Schüller en aðstoðardómarinn dæmdi rangstöðu. Af endursýningu að dæma virtist hún ekki vera fyrir innan og markið hefði átt að standa.

Fyrir utan þetta atvik var dómgæslan fín.

Stemning og umgjörð

Stórleikur hjá kvennalandsliðinu á sama tíma og Símamótið stendur yfir er jafn góð blanda og skinka og ostur. Það var frábær stemning á vellinum og stelpurnar á Símamótinu létu vel í sér heyra og hvöttu íslenska liðið áfram.

Stemningin eftir leik var ólýsanleg. Ísland á leiðinni í fimmta skipti í röð á Evrópumótið og að hafa náð að tryggja farseðilinn til Sviss á næsta ári á heimavelli gegn Þýskalandi mun seint gleymast.


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira