Erlent

Felldi tár þegar málinu var vísað frá

Jón Þór Stefánsson skrifar
Máli Alec Baldwin hefur verið vísað frá dómi.
Máli Alec Baldwin hefur verið vísað frá dómi. EPA

Máli á hendur bandaríska leikaranum Alec Baldwin, þar sem hann var sakaður um manndráp af gáleysi, hefur verið vísað frá dómi. Réttarhöld í málinu hófust í vikunni en lauk í gærkvöldi þegar dómari komst að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið og lögreglan hefðu haldið aftur af sönnunargögnum.

Málið varðar kvikmyndatökumanninn Halyna Hutchins sem lést eftir að skot hljóp af byssu Baldwins á tökustað myndarinnar Rust árið 2021.

Í ljós kom að Hannah Gutierrez-Reed, sem sinnti eftirliti með vopnunum á kvikmyndasettinu hafði ruglast á gerviskotfærum og raunverulegum skotum. 

Hún hlaut átján mánaða fangelsisdóm fyrir sinn þátt í dauðsfallinu.

Dómari í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hefði visvítandi komið í veg fyrir að Baldwin og verjendur hans hefðu aðgang að lykilsönnunargögnum er varða skotfærin.

Því var máli Baldwins vísað frá dómi. Þar að auki úrskurðaði dómarinn að ákæruvaldið gæti ekki höfðað mál á hendur leikaranum á ný.

Baldwin felldi tár og faðmaði verjanda sinn og síðan eiginkonu sína Hilariu Baldwin, þegar dómarinn las þessa niðurstöðu sína.

Alec Baldwin faðmar eiginkonu sína Hilariu Baldwin.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×