Körfubolti

Norður­landa­meistarnir fengu stóran skell í fyrsta leik EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Almar Orri Atlason átti mjög erfiðan dag eins og fleiri í íslenska liðinu.
Almar Orri Atlason átti mjög erfiðan dag eins og fleiri í íslenska liðinu. FIBA.basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla í körfubolta fékk stóran skell í dag í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Gdynia í Póllandi.

Litháen vann þá þrjátíu stiga sigur á Íslandi, 93-63, og skaut íslensku strákana heldur betur niður á jörðina eftir alla velgengnina á Norðurlandamótinu á dögunum. Íslenska liðið varð þá Norðurlandameistari en mætti núna einu besta liði Evrópu.

Tómas Valur Þrastarson var stighæstur í íslenska liðinu með ellefu stig en Friðrik Leó Curtis skoraði tíu stig. Elías Bjarki Pálsson skoraði sjö stig og Hallgrímur Árni Þrastarson var með sex stig.

Litháum tókst alveg að loka á Almar Orri Atlason og heildarskotnýting íslenska liðsins var aðeins 25 prósent (20 af 81). Almar klikkaði á tólf af þrettán skotum sínum í leiknum.

Íslenska liðið var 4-2 yfir í upphafi leiks en fékk síðan á sig ellefu stig í röð og staðan var allt í einu orðin 13-4 fyrir Litháen.

Litháarnir voru komnir með frumkvæðið og þeir voru tólf stigum yfir, 24-12, eftir fyrsta leikhlutann. Paulius Murauskas var íslensku strákunum erfiður og skoraði tíu stig á fyrstu sex mínútum leiksins. Hann endaði á því að skora 19 stig á 19 mínútum í leiknum.

Stjarna íslenska liðsins, Almar Orri Atlason, klikkaði aftur á móti á öllum sex skotum sínum í fyrsta leikhlutanum en skotnýting íslenska liðsins í leikhlutanum var aðeins 18 prósent (4 af 23).

Munurinn var orðinn 31 stig í hálfleik þegar staðan var 52-21 fyrir Litháen. Almar Orri var enn ekki búinn að hitta úr skoti (0 af 9) og var bara með eitt stig á sextán spiluðum mínútum í hálfleiknum.

Tómas Valur Þrastarson skoraði meira en helming stiga íslenska liðsins í fyrri hálfleiknum eða 11 af 21.

Íslenska liðið náði örlítið að laga stöðuna í seinni hálfleik en ekki mikið og Litháarnir fögnuðu risasigri í fyrsta leik mósins.

Það kemur dagur eftir þennan dag og nú þurfa íslensku strákarnir að rífa sig upp fyrir leik á móti Svartfellingum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×