Fótbolti

Þórsarar upp í efri hlutann eftir stór­sigur í Mosó

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rafael Victor skoraði tvö mörk í dag.
Rafael Victor skoraði tvö mörk í dag. Facebooksíða Þórs Akureyri

Þórsarar eru komnir upp í efri hluta Lengjudeildar karla í knattspyrnu eftir stórsigur á útivelli gegn Aftureldingu í dag.

Fyrir leikinn í dag voru Afturelding og Þór með jafnmörg stig í 8. - 9. sæti Lengjudeildarinnar en Þór hafði ekki tapað í síðustu fjórum leikjum sínum eftir að hafa byrjað mótið illa. Afturelding tapaði hins vegar 3-0 gegn ÍR í síðustu umferð en liðinu hefur gengið illa að tengja saman sigra á tímabilinu.

Þórsarar mættu af miklum krafti til leiks í Mosfellsbæ í dag. Framherjinn Rafael Victor kom Þór yfir á 8. mínútu með marki úr vítaspyrnu og Vilhelm Biering Ottósson bætti öðru marki við á 20. mínútu.

Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik bætti Victor síðan við sínu öðru marki. Staðan í hálfleik 3-0 og leikmenn Aftureldingar í allskonar vandræðum.

Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Þórsarar ætluðu sér augljóslega ekki að missa niður góða stöðu og fór svo að hvorugu liðinu tókst að skora í síðari hálfleik. Lokatölur 3-0 fyrir Þór sem þar með lyfta sér upp í 5. sæti Lengjudeildarinnar.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá Fótbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×