Fótbolti

Svein­dís Jane sú eina með tvennt af hvoru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar markinu sínu á móti Þýskalandi sem gerði endanlega út um leikinn.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar markinu sínu á móti Þýskalandi sem gerði endanlega út um leikinn. Vísir/Anton Brink

Sveindís Jane Jónsdóttir í sérflokki þegar kemur að því að bæði skora og leggja upp mörk í undankeppni EM í Sviss.

Sveindís Jane átti þátt í öllum þremur mörkum íslenska landsliðsins í sigrinum á Þjóðverjum á föstudaginn.

Sveindís lagði upp tvö fyrstu mörkin fyrir þær Ingibjörgu Sigurðardóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur. Hún skoraði síðan þriðja markið sjálf.

2+2

Hún er þar með komin með tvö mörk og tvær stoðsendingar í undankeppninni.

Sveindís er eini leikmaðurinn í A-deildinni sem er með tvennt af hvoru, það er tvö mörk eða meira og tvær eða fleiri stoðsendingar.

Sveindís Jane Jónsdóttir gefur aðdáenda eiginhandaráritun eftir leikinn.Vísir/Anton Brink

Engin af hinum sem hafa skorað tvö mörk eða fleiri í undankeppni A-deildarinnar hafa gefið fleiri en eina stoðsendingu. 22 leikmenn hafa skorað tvö mörk eða fleiri þegar Sveindís er meðtalin.

Engin af þeim tíu öðrum sem hafa gefið tvær stoðsendingar eða fleiri hafa síðan náð að skora meira en eitt mark.

Karólína Lea ofarlega

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er meðal þeirra efstu í stoðsendingum en hún hefur gefið þrjár stoðsendingar.

Aðeins Spánverjinn Athenea del Castillo hefur gefið fleiri stoðsendingar eða fjórar.

Karólína Lea er með þrjár stoðsendingar eins og þrjár aðrar eða Pernille Harder frá Danmörku, Alexia Putellas frá Spáni og Barbara Dunst frá Austurríki.

Markahæstu leikmenn undankeppninnar eru Lea Schüller frá Þýskalandi og Eileen Campbell frá Austurríki með fimm mörk hvor.

Sveindís er markahæst í íslenska liðinu ásamt Hlín Eiríksdóttur en báðar hafa þær skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×