Körfubolti

Stelpurnar komust ekki upp í A-deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agnes María Svansdóttir var atkvæðamikil í íslenska liðinu í dag eins og svo oft á þessu móti.
Agnes María Svansdóttir var atkvæðamikil í íslenska liðinu í dag eins og svo oft á þessu móti. FIBA.basketball

Íslenska tuttugu ára landslið kvenna í körfubolta tapaði leiknum um þriðja sætið á móti Tékklandi á EM í Búlgaríu í dag.

Tékkland hafði mikla yfirburði í leiknum og vann á endanum með 25 stiga mun, 77-52.

Íslenska liðið hafði þegar náð bestum árangri frá upphafi með því að komst í undanúrslit í b-deild Evrópukeppninnar en lenti því miður í því að leikmenn veiktust á lokakaflanum. Matareitrun kom upp á svæðinu en liðin lentu mismunandi illa í henni og nokkrir leikmenn íslenska liðsins sluppu ekki.

Íslenska liðið tapaði á móti Belgíu með 36 stigum í undanúrslitum í gær og svo aftur stórt á móti Tékkum í dag.

Eva Wium Elíasdóttir var með stigahæst í leiknum í dag með sextán stig, Agnes María Svansdóttir skoraði 12 stig fyrir íslenska liðið og Anna Lára Vignisdóttir var með átta stig.

Emma Hrönn Hákonardóttir bætti við 7 stigum og 6 fráköstum. Jana Falsdóttur var ísköld og munaði um minna en hún klikkaði á öllum tíu skotum sínum í leiknum.

Íslensku stelpurnar höfðu staðið í Tékkum fullfrískar í milliriðlinum en í dag áttu þær litla möguleika.

Þær skoruðu aðeins þrjú stig í fyrsta leikhlutanum og voru strax lentar fimmtán stigum undir, 18-3.

Bensínlausar íslenskar stelpur klukkuðu á 25 af fyrstu 26 skotum sínum í leiknum og voru aðeins með fimm stig á fyrstu fimmtán mínútum leiksins.

Það fóru loksins að hitta aðeins og í hálfleik voru þær búnar að bæta við fjórtán stigum. Tékkar voru engu að síður nítján stigum yir, 38-19.

Munurinn var orðinn 29 stig, 60-31, fyrir lokaleikhlutann og úrslitin því löngu ráðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×