Erlent

Kallas segir af sér vegna nýja starfsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kallas, 47 ára, var fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Eistlands árið 2021.
Kallas, 47 ára, var fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Eistlands árið 2021. AP/Matt Rourke

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, hefur sagt af sér en mun sitja áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Kalls hefur verið útnefnd til að taka við sem næsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála hjá Evrópusambandinu.

Alar Karis, forseti Eistlands, greindi frá því á X/Twitter að hann hefði tekið við afsögn Kallas sökum útnefningarinnar. Hann hefði þakkað henni fyrir störf hennar og óskað henni alls hins besta.

Hann myndi nú eiga viðræður við alla flokka á þinginu um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Útnefning Kallas hefur verið nokkuð umdeild, ekki síst sökum þess að hún þykir mjög einörð í afstöðu sinni til mála, sem andstæðingar segja ókost en stuðningsmenn kost. 

Þá ber að nefna að Kallas er eftirlýst í Rússlandi, þar sem hún hefur meðal annars verið fordæmd fyrir að láta fjarlægja minnisvarða um Sovétríkin.

Kallas talar, auk eistnesku, ensku, frönsku, finnsku og rússnesku.

Hún tekur við af Spánverjanum Josep Borrell, sem hefur setið í embætti frá 2019. 

Borrell er hagfræðingur, stærðfræðingur og flugverkfræðingur og var áður ráðherra í ríkisstjórnum Felipe González, Evrópuþingmaður og forseti Evrópuþingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×