Lífið

New York Times lofar Snertingu

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Snerting er tekin upp í Japan, London og á Íslandi.
Snerting er tekin upp í Japan, London og á Íslandi. Baltasar Breki Semper

Sýningar á kvikmyndinni Snerting í leikstjórn Baltasars Kormáks hófust í Bandaríkjunum síðastliðinn föstudag. Í aðdraganda frumsýningarinnar hefur myndin hlotið frábæra dóma hjá þarlendum gagnrýnendum. 

Fjölmiðlar á borð við New York Times, Wall Street Journal og TIME, fagtímaritin Variety og Hollywood Reporter, ásamt áhrifamiklum netmiðlum á borð við IndieWire, Mashable, Screen Daily og Roger Ebert. Þá segir gagnrýnandi hins áhrifamikla vefmiðils Movieweb í dómi sínum að Snerting (Touch) sé besta mynd sem komið hafi í bíó í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári. Á vefsíðunni Rotten Tomatoes, sem dregur saman umsagnir gagnrýnenda, er kvikmyndin með 95% í einkunn.

Gagnrýnandi TIME, Stephanie Zacharek, tekur ekki síður djúpt í árina: „Snerting er mynd leikstjóra sem leyfir sér að láta kylfu ráða kasti og hugsa með hjartanu, og með því fær hann okkur áhorfendur til að trúa því að við getum það líka.“

Í New York Times segir: „Nærfærinn leikur og gífurlega áhrifamikil flétta gerir Snertingu að sígildri vasaklútamynd að viðbættri einstaklega næmri útfærstu á ást fólks af ólíkum bakgrunni.“

Í Variety segir: „Þegar upp er staðið er Snerting einstaklega áhrifamikil og mannleg mynd um fólk sem endurreisir líf sitt eftir skelfilegan missi með því vinna bug á sorginni með kjark og ást að vopni. Og það er ekkert sem hefur jafn djúpstæð áhrif á áhorfendur og að verða vitni að því.“

Ríkuleg uppskera

„Það er ótrúlega gefandi að lesa lof um kvikmyndina og þá sérstaklega þegar verið er að hlaða lofi á samstarfsfólk mitt. Fólki sem hefur gefið allt í þessa mynd og uppsker nú ríkulega. Leikarar, listrænt samstarfólk, tæknimenn og allir aðrir, sem lögðu hönd á plóginn. Nú þegar Snerting er að hefja heimsreisu sína er einnig vert að þakka stjórnvöldum, Kvikmyndamiðstöð Íslands og öllum þeim sem hafa haft trú á íslenskri menningu hér heima og erlendis,“ segir Baltasar Kormákur um viðtökurnar ytra.

Það er hið þekkta kvikmyndaver Focus Features sem fer með réttinn og dreifinguna á Snertingu í Bandaríkjunum en utan þeirra er Universal Pictures í því hlutverki.

Í spilaranum hér að neðan má sjá fyrstu Kitluna úr Snertingu.

Mikið lof um allan heim

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, sem var mest selda bókin á Íslandi árið 2020 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Hún er sýnd í Smárabíó, Laugarásbíó, Bíó Paradís og völdum kvikmyndahúsum á landsbyggðinni.

Kvikmyndin segir sögu Kristófers, eldri manns sem stendur á tímamótum og leitar svara við áleitnum spurningum úr fortíð sinni. Hvað varð um stúlkuna sem hvarf sporlaust úr lífi hans fimmtíu árum áður?Sagan teygir sig víða um heim og ferðalag Kristófer ber hann þvert yfir hnöttinn. Á leið sinni rifjar hann upp sælar minningar frá sumrinu sínu í London 1969. Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið sem Kristófer.

Snerting hefur hlotið mikið lof gagnrýnanda og áhorfanda á Íslandi en hér var hún frumsýnd í maí og er enn sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum.


Tengdar fréttir

Snerting Egils Ólafssonar við lífið og tilveruna

Egill Ólafsson segir mikilvægt að hreyfa sig til að vinna gegn framþróun Parkinson sjúkdómsins. Heimir Már slóst í gönguferð með Agli þar sem þeir ræddu um hlutverk hans í kvikmyndinni Snertingu og allt milli himins og jarðar.

Egill mætti með barnabörnin á forsýningu Snertingar

Hátiðarforsýning á íslensku kvikmyndinni Snertingu í leikstjórn Baltasar Kormáks fór fram með pompi og prakt í Smárabíó í gærkvöldi. Sýningin var gríðarlega vel sótt og voru þar meðal annars alþjóðlegar stórstjörnur sem vinna nú með Baltasar að þáttagerð hér á landi.

Frumsýning á Vísi: Fyrsta stiklan úr Snertingu

Stikla úr kvikmyndinni Snerting eftir Baltasar Kormák er komin út. Baltasar segist alltaf hafa verið meiri kitlumaður frekar en stiklumaður. Hann segist ekki geta beðið eftir að landsmenn fái loksins að bera myndina augum.

Frumsýning á Vísi: Fyrsta kitlan úr Snertingu

Snerting, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, verður frumsýnd á Íslandi 29. maí næstkomandi. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, sem var mest selda bókin á Íslandi árið 2020 og hlaut mikið lof gagnrýnenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.