Körfubolti

Stutt gaman hjá strákunum sem réðu ekki við Serbana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson skoraði átján stig í leiknum í dag.
Tómas Valur Þrastarson skoraði átján stig í leiknum í dag. FIBA.basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla í körfubolta spilar um þrettánda sætið eftir 22 stiga tap á móti Serbíu á Evrópumótinu í Póllandi í dag, 101-79.

Liðin voru að spila hreinan úrslitaleik um það hvort þeirra myndi sila um níunda til tólfta sætið og hvort spilaði um þrettánda til sextánda sætið.

Tapið þýðir að íslensku strákarnir eru ekki búnir að tryggja sér áframhaldandi sæti í A-deildinni að ári.

Almar Orri Atlason var stigahæstur í íslenska liðinu með 20 stig en Tómas Valur Þrastarson skoraði 18 stig. Ágúst Goði Kjartansson var síðan með 10 stig og Daníel Ágúst Halldórsson skoraði 8 stig og gaf 7 stoðsendingar.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel, tók forystuna í upphafi leiks og vann fyrsta leikhlutann 26-22.

Íslenska liðið komst mest ellefu stigum yfir í öðrum leikhlutanum og útlitið var bjart. Þetta var því miður stutt gaman hjá strákunum í dag.

Þeir töpuðu síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiksins 18-4 og staðan breyttist úr 42-33 fyrir Ísland í 51-46 fyrir Serbíu sem var hálfleiksstaðan.

Serbarnir voru komin með undirtökin og voru áfram sterkari í seinni hálfleiknum.

Þriðja leikhlutann unnu þeir 26-17 og leikinn á endanum sannfærandi með 22 stigum.

Serbarnir pökkuðu íslenska liðinu saman í fráköstum sem þeir unnu með tuttugu fráköstum, 45-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×