Adam skrifaði í morgun undir lánssamning við Perugia. Hann kemur til félagsins frá Val þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil.
„Þeir sýndu fyrst áhuga í ágúst í fyrra en svo kom þetta aftur upp fyrir 1-2 mánuðum. Það var smá vesen milli félaganna en Valur vildi hjálpa mér að elta drauminn og ég er mjög þakklátur þeim,“ sagði Adam í samtali við Vísi eftir að hafa skrifað undir hjá Perugia í dag.
Eins og Seriu A félag
Á síðasta tímabili endaði Perugia í 4. sæti B-riðils C-deildarinnar á Ítalíu. En félagið stefnir hærra.
„Þetta er sögufrægt félag. Meðal leikmanna sem hafa spilað þarna eru Gennaro Gattuso, Paolo Rossi, Fabio Grosso og Marco Materazzi. Þetta er risastórt félag sem stefnir upp í B-deildina þar sem þeir léku á þarsíðasta tímabili,“ sagði Adam.
„Þeir eru með 25 þúsund manna völl og þetta er í raun og veru Seriu A umgjörð í Seriu C. Allt í kringum þetta er stórt.“
Perugia, sem er frá Úmbríu-héraði í miðri Ítalíu, lék síðast í ítölsku úrvalsdeildinni tímabilið 2003-04 en undanfarin tuttugu ár hefur liðið flakkað milli Seriu B og C.
Þakklátur fyrir tækifærið
Adam er fullur tilhlökkunar að byrja að spila með Perugia.
„Ég get ekki beðið eftir að sýna mig og sanna. Við eigum leik við Roma eftir 2-3 vikur og ég hlakka mikið til,“ sagði Adam.
„Ég er búinn að stefna að þessu síðan ég var lítill krakki. Þetta hefur verið draumurinn og ég er þakklátur að tækifærið sé komið núna.“
Adam lék sem fyrr sagði með Val um tveggja ára skeið. Hann ber gamla félaginu sínu vel söguna og segist standa í þakkarskuld við það.
„Ég er þakklátur Val fyrir að leyfa mér að elta drauminn minn. Þeir vildu ekki missa mig en leyfðu mér samt að grípa þetta tækifæri,“ sagði Adam að endingu.