Körfubolti

Strákarnir unnu Tyrki og héldu sér í A-deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland vann Tyrkland í úrslitaleik um það hvort liðið héldi sér í A-deild Evrópumótsins.
Ísland vann Tyrkland í úrslitaleik um það hvort liðið héldi sér í A-deild Evrópumótsins. kkí

Ísland tryggði sér áframhaldandi sæti í A-deild Evrópumóts karla í körfubolta U-20 ára með sigri á Tyrklandi í dag, 96-95.

Íslendingar unnu síðustu tvo leiki sína á EM og héldu sér þar með í A-deild mótsins.

Tómas Valur Þrastarson skoraði 26 stig fyrir íslenska liðið í dag, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hann hitti úr ellefu af sextán skotum sínum.

Ágúst Goði Kjartansson skoraði 22 stig og gaf sjö stoðsendingar og Almar Orri Atlason var með 21 stig og þrettán fráköst. Daníel Halldórsson gerði svo ellefu stig og gaf fimm stoðsendingar.

Íslensku strákarnir leiddu bróðurpart leiksins og náðu mest tólf stiga forskoti. Tyrkir voru þó aldrei langt undan og þeir voru yfir í hálfleik, 36-38. Líkt og gegn Norður-Makedóníumönnum í gær fóru Íslendingar mikinn í 3. leikhluta sem þeir unnu með tíu stigum, 32-22.

Tyrkneska liðið sótti hart að því íslenska á lokakafla leiksins en fór aðeins of seint í gang. Almar fór langt með að tryggja Íslandi sigurinn þegar hann skoraði körfu góða, setti niður vítaskot og kom Íslendingum í 96-92 þegar fimm sekúndur voru eftir.

Tyrkir svöruðu með þriggja stiga körfu en tíminn var of naumur fyrir þá og Íslendingar fögnuðu sigrinum vel og innilega.

Íslensku strákarnir töpuðu frákastabaráttunni, 62-38, og fengu á sig 26 stig eftir sóknarfráköst. Þeir skoruðu hins vegar tíu fleiri stig en Tyrkir úr hraðaupphlaupum og hittu betur, 57 prósent gegn 48 prósentum.

Sumarið var einstaklega gott fyrir strákana í íslenska liðinu því þeir urðu Norðurlandameistarar auk þess að halda sér í A-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×