Fótbolti

Riftu samningi við besta leik­mann Copa América

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez með verðlaun sín sem besti leikmaður Copa America 2024.
James Rodriguez með verðlaun sín sem besti leikmaður Copa America 2024. Getty/Pablo Morano

Kólumbíumaðurinn James Rodriguez er laus allra mála hjá brasilíska félaginu São Paulo aðeins nokkrum dögum eftir að hann var valinn besti leikmaður Suðurameríkukeppninnar.

Rodriguez fór á kostum með kólumbíska landsliðinu sem fór alla leið í úrslitaleik keppninnar. Hann var maður leiksins í fjórum leikjanna og lagði alls upp sex mörk liðsins á mótinu.

Frammistaða Rodriguez kom mörgum á óvart enda flestir búnir að afskrifa hann enda var lítið að frétta af honum síðustu árin.

Rodriguez var stórstjarna eftir HM 2014 og fór eftir keppnina til Real Madrid. Hann var seinna lánaður til Bayern München og spilaði með Everton tímabilið 2020-21. Undanfarin ár hefur hann flakkað milli félaga og spilað í Katar, Grikklandi og nú síðast í Brasilíu.

Rodriguez var á samningi hjá brasilíska félaginu São Paulo en leikmaðurinn og félagið komust að samkomulagi um að rifta samningnum.

Fabrizio Romano segir frá þessu og að Rodriguez sé nú að leita sér að nýju félagi.

„Hann er tilbúinn fyrir nýjan kafla á ferli sínum eftir að hafa spilað frábærlega með Kólumbíu í Copa América. Hvaða félag ætti að semja við James,“ spurði Romano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×