Bifreiðakaup Höllu Tómasdóttur og Björns Skúlasonar, verðandi forsetahjóna, fengu mikla athygli eftir að bílaumboðið Brimborg greindi frá kaupum þeirra í Facebook-færslu með mynd af þeim hjónum við bílinn, þar sem kostir bílsins voru taldir upp. Myndin hefur verið fjarlægð og Halla sagði að hún hefði verið birt í leyfisleysi.
Í tilkynningu frá Agli segist hann taka undir yfirlýsingu sem Halla sendi frá sér í gær. Myndin hafi verið samstundis tekin úr birtingu þegar ósk um það kom.
„Halla hefur svo eftir er tekið sett á dagskrá stöðu kvenna en ekki síður umhverfisins í sínum störfum. Í þessu tilviki sýna verðandi forsetahjón gott fordæmi eins og kom fram í texta með myndbirtingunni og eins og Halla bendir á í sinni yfirlýsingu og kaupa rafbíl, sem er mildari gagnvart umhverfinu og styður við orkuskiptin á Íslandi,“ segir Egill.
Þá segir að kjörin við kaupin hafi verið algjörlega í samræmi við reglur Brimborgar. Kjörin hafi tekið mið af nokkrum þáttum, m.a. fyrri viðskiptum, greiðslufyrirkomulagi og aðstæðum á markaði hverju sinni. „Þau eru því í samræmi við það sem aðrir kaupendur fengju sem uppfylla sömu skilyrði.“
Brimborg muni í framhaldinu skerpa á ferli varðandi myndbirtingar af þessu tagi til að koma í veg fyrir misskilning sem þennan.