Erlent

FBI dregur for­stjórann í land og stað­festir að Trump hafi orðið fyrir byssu­kúlu

Eiður Þór Árnason skrifar
Donald Trump var fylgt af sviðinu eftir árásina í Butler í Pennsylvaníu þann 13. júlí síðastliðinn.
Donald Trump var fylgt af sviðinu eftir árásina í Butler í Pennsylvaníu þann 13. júlí síðastliðinn. Ap/Gene J. Puskar

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) staðfestir að það hafi verið byssukúla sem hæfði eyra Donalds Trump á kosningafundi í Pennsylvaníu fyrir um tveimur vikum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar óljósra frásagna um það hvað olli sárum hans þegar byssumaður hóf skothríð þann 13. júlí.

„Það sem hæfði Trump, fyrrverandi forseta í eyrað var byssukúla, hvort sem hún var heil eða búin að sundrast í minni hluta, skotið úr riffli hins látna,“ segir í yfirlýsingu alríkislögreglunnar en árásarmaðurinn var skotinn til bana á staðnum.

Þessi stutta yfirlýsing kemur í kjölfar óljósra ummæla sem Christopher Wray, forstjóri alríkislögreglunnar lét falla fyrr í vikunni. Virtust þau vekja efasemdir um það hvort Trump hafi raunverulega orðið fyrir byssukúlu.

„Það er viss spurning hvort það var byssukúla eða eitthvað brot sem hæfði eyra hans,“ sagði Wray í svari við spurningu Jim Jordan, formanni dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á miðvikudag. Sneri hún að því hvort FBI hafi gert grein fyrir öllum byssukúlunum sem skotið var af árásarmanninum.

„Það er hugsanlegt – eins og stendur veit ég ekki hvort þessi kúla, ásamt því að valda skrámunni hefði hún líka getað lent annars staðar,“ sagði Wray.

Vakið reiði stuðningsmanna

Orð forstjórans vöktu reiði Trumps og bandamanna hans og ýttu frekar undir samsæriskenningar sem hafa sprottið upp eftir banatilræðið þann 13. júlí.

Fram að þessu höfðu fulltrúar alríkislögreglunnar og leyniþjónustunnar sem tóku þátt í rannsókn málsins neitað að veita upplýsingar um það hvað olli sárum Trumps. Kosningaherbúðir Trumps hafa sömuleiðis ekki viljað birta sjúkraskrár frá sjúkrahúsinu þar sem hann var fyrst meðhöndlaður eða veita fjölmiðlum aðgang að læknum þar.

Í stað þess hafa upplýsingar fyrst og fremst borist frá Trump sjálfum og Ronny Jackson, lækni og dyggum stuðningsmanni Trumps sem starfaði sem læknir hans í Hvíta húsinu.

Donald Trump hefur lýst því að byssukúla hafi farið í gegnum eyra hans á þessum örlagaríka kosningafundi.AP/Evan Vucci

Lítið um svör í fyrstu

AP-fréttaveitan greinir frá því að spurningar um umfang og eðli sára Trumps hafi vaknað strax eftir árásina þegar kosningateymi hans og lögreglumenn neituðu að svara spurningum um ástand hans eða meðferðina sem hann fékk.

Trump sagði á samfélagsmiðlinum Truth Social nokkrum klukkustundum eftir árásina að hann hafi verið „skotinn með byssukúlu sem fór í gegnum efri hlutann á hægra eyra mínu.“

„Ég vissi strax að eitthvað var að af því ég heyrði suð, skot og fann strax þegar kúlan fór í gegnum húðina,“ skrifaði hann.

Tregða alríkislögreglunnar við að staðfesta þessa frásögn hefur aukið á spennu milli forsvarsmanna stofnunarinnar og forsetans fyrrverandi sem hefur lengi sakað hana um að vinna gegn sér. Wray, forstjóri alríkislögreglunnar hefur hafnað þeim ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×