Fótbolti

Di María: Hótanir komu í veg fyrir drauma­endinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Di María óttast öryggi fjölskyldu sinnar og treystir sér ekki til að flytja heim til Rosario í Argentínu.
Di María óttast öryggi fjölskyldu sinnar og treystir sér ekki til að flytja heim til Rosario í Argentínu. Getty/Ira L. Black

Argentínski knattspyrnumaðurinn Ángel Di María ætlaði alltaf að enda feril sinn í fæðingarbænum en ekkert verður nú af því.

Di María sagði það hafa verið draum sinn að klára ferilinn í heimabænum sínum Rosario en aukning á glæpum í borginni og hótanir gegn fjölskyldu hans hafi gert út af við þann draum.

Di María er frá Rosario eins og Lionel Messi. Ekki er búist við því að Messi endi ferilinn þar heldur.

Di María setti punktinn aftur við landsferil sinn í sumar með því að vinna Copa América með argentínska landsliðinu.

Lýsingar hans á hótununum er ekki falleg lesning. Di María sagði að fjölskyldan hafi fengið sent svínshöfuð sem hafði verið skotið í höfuðið. Systir hans og fjölskylda hennar fengu einnig hótunarbréf þar sem dóttur Di María var hótað lífláti. ESPN segir frá.

„Foreldrum mínum var hótað sem var gert opinbert en á sama tíma fékk systir mín þetta bréf. Það fréttist aldrei af því vegna þess að systir mín og svili urðu hrædd og vildu ekki segja frá því,“ sagði Di María við Canal 3 sjónvarpsstöðina í Rosario.

Hinn 36 ára gamli Di María sagði að hann og fjölskyldan hafi tekið endanlega ákvörðun um það í mars að snúa ekki aftur til Rosario. „Þessar hótanir vógu þyngra en allt annað,“ sagði Di María. 

Hann fékk sinn fyrsta fótboltasamning í Rosario en fór til Benfica í Portúgal þegar hann var nítján ára. Di María spilaði síðan fyrir Real Madrid, Manchester United, Paris Saint-Germain, Juventus og var síðan hjá Benfica á síðasta tímabili.

„Þessir mánuðir voru hræðilegir. Við sátum saman og grétum það að geta ekki fengið að upplifa draumaendinn okkar. Þau sem skilja þetta ekki, geta greinilega ekki sett sig í mín spor í eina sekúndu. Það er auðvelt að koma illa fram við aðra á samfélagsmiðlum án þess að setja sig nokkurn tímann í þeirra spor,“ sagði Di María.

Það er búist við því að hann taki annað tímabil með Benfica liðinu en það hefur ekki verið staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×