Víkingur er komið áfram í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar eftir 2-0 sigur ytra gegn KF Egnatia frá Albaníu. Víkingar sneru taflinu vel við eftir að hafa tapað fyrri leiknum 1-0 og voru mun betri aðilinn í dag.
Frá fyrstu mínútu lágu heimamenn langt til baka og vörðu forystuna. Víkingur mun meira með boltann og sköpuðu sér nokkur fín hálf-færi en ekkert alvarlegt fyrst um sinn. Svolítið rólegt sóknartempó hjá þeim en vantaði alls ekki ákefð í pressuna þegar þeir misstu boltann. Gerðu virkilega vel þar og stjórnuðu leiknum í raun algjörlega.
Það var svo eftir 28 mínútna leik sem Ari Sigurpálsson stakk boltanum inn fyrir á Gísla Gottskálk sem tók skref til hægri, skaut að marki og boltinn fór af varnarmanni í annan varnarmann og þaðan sveif hann í netið. Skrípalegt sjálfsmark hjá Francois Dulysse.
Dauðafæri Djuric
Danijel Dejan Djuric kom inn sem varamaður þegar Pablo Punyed fór meiddur af velli. Hann fékk svo algjört dauðafæri til að skora rétt fyrir hálfleik. Boltinn lagður fyrir og markmaðurinn í engri stöðu til að verja en Djuric skaut hátt yfir af stuttu færi. Stórkostlegt klúður og Víkingar því aðeins með eins marks forystu þegar flautað var til hálfleiks.
Fljótir að setja hann í seinni
Það breyttist fljótt þegar stigið var út í seinni hálfleik. Aukaspyrna á 48. mínútu var skölluð af varnarmanni Egnatia beint fyrir fætur Arons Elís sem kláraði auðvelt færi örugglega og kom Víkingi tveimur mörkum yfir.
Það var afskaplega fátt frásagnarvert það sem eftir lifði leiks. Heimamenn uppskáru eitt almennilegt færi í leitinni að jöfnunarmarki, annars lokuðu Víkingar á svo gott sem allt, tóku sinn tíma í allar aðgerðir og sigldu sigrinum örugglega heim.
Þeir halda því áfram í þriðju umferð undankeppninnar og mæta næst FC Flora Tallinn frá Eistlandi. Fyrri leikurinn verður á heimavelli Víkings þann 8. ágúst, liðin mætast svo aftur 15. ágúst. Sigurvegarinn úr því einvíginu fer í umspil um sæti í Sambandsdeildinni.
Atvik leiksins
Eftir að hafa lent tveimur mörkum undir sóttu Egnatia menn upp völlinn og komust í algjört dauðafæri. Boltinn skoppaði á fjærsvæðið til Lorougnon Doukouo sem skaut í fyrstu snertingu en Ingvar Jónsson færði sig fljótt milli stanga, setti sig í stöðu krossfisks og lokaði á hann.
Stjörnur og skúrkar
Viktor Örlygur með stórleik, varnar- og sóknarlega, mikilvægur í öllum aðgerðum Víkings. Aron Elís spilaði sem fremsti maður og gerði það vel áður en meiðsli neyddu hann af velli. Ingvar Jónsson fær stjörnu í kladdann. Varnarlínan í heild sinni líka mjög traustvekjandi. Svo hrífst maður alltaf af Helga Guðjónssyni þegar hann kemur inn af varamannabekknum.
Heilt yfir frábær frammistaða hjá öllu Víkingsliðinu.
Stemning og umgjörð
Engin. Stuðningsmenn Egnatia létu öllum illum látum í síðustu umferð og félagið var dæmt í tveggja ára heimavallar- og stuðningsmannabann. Leikurinn var því færður frá þeirra heimavelli yfir á þjóðarleikvanginn Loro Borici, sem tekur alla jafnan 16.000 manns í sæti en það var enginn viðstaddur í kvöld, frekar draugalegt.