Körfubolti

Ant­hony Edwards í stuði í stór­sigri Banda­ríkja­manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards var frábær í sigri Bandaríkjamanna í dag.
Anthony Edwards var frábær í sigri Bandaríkjamanna í dag. Getty/Gregory Shamus

Bandaríska körfuboltalandsliðið hélt áfram sigurgöngu sinni á Ólympíuleikunum í París með 21 stigs sigri á Púertó Ríkó, 104-83.

Bandaríkjamenn unnu þar með alla leiki sína í riðlinum og unnu hann sannfærandi. Liðið vann 26 stiga sigur á Serbíu (110-84), 17 stiga sigur á Suður-Súdan (103-86) og svo þennan sigur í dag.

Púertó Ríkó byrjaði leikinn vel, komst átta stigum yfir í fyrsta leikhluta og var fjórum stigum yfir við lok hans, 29-25.

Bandaríska liðið vann annan leikhlutann 39-16 og keyrði yfir Púertó Ríkó það sem eftir var leiksins.

Anthony Edwards var stigahæstur hjá bandaríska liðinu með 26 stig á aðeins rúmum sautján mínútum. Hann var í miklu stuði og skemmti áhorfendum með frábærum tilþrifum.

LeBron James var með tíu stig, sex fráköst og átta stoðsendingar á átján mínútum. Anthony Davis skoraði líka tíu stig.

Kevin Durant skoraði 11 stig á nítján mínútum og Joel Embiid var með 15 stig á 23 mínútum en hitti ekki vel.

Jayson Tatum fékk að spila mikið í dag og var með tíu stig og tíu fráköst á 23 mínútum.

Bandaríkjamenn mæta Brasilíu í átta liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×