Mikið hefur verið fjallað um ýmsar framkvæmdir í fréttum undanfarið eins og til dæmis í leikskólanum Brákarborg þar sem gerð voru mistök við hönnun.
Reynir segir dæmigert að eftirliti sé sinnt af öðrum en þeim sem sá um hönnun og það sé sérstakt hlutverk sem sé óháð henni. Sá sem sjái um eftirlitið eigi að sjá til þess að hún sé samkvæmt hönnun og lögum og reglum.
„Það er mjög stórt og mikilvægt hlutverk í heildarkeðjunni að sinna eftirliti,“ segir Reynir og að umfang þess sé svipað og hönnunin sjálf. Í eftirlitinu felst það að fylgjast með framkvæmdinni sjálfri, efnunum sem er verið að nota og allt niður í það að telja steypujárnin áður en það er steypt.
Reynir segir að erlendis séu stundum eftirlitsaðilarnir frá sama fyrirtæki og hönnuðu. Það séu kostir og gallar við bæði. Það sé auðveldara að gagnrýna ef það er ekki sami aðili.
Hann segir að innan félags verkfræðinga sé mikið rætt um ábyrgð og að félagið hafi opnað samtal við stærstu verkkaupa, sem eru ríki og sveitarfélög. Hann segir að þetta sé risamál og þróunin sé að það sé meiri harka í þessum verkefnum. Áður fyrr hafi ekki reynt jafn mikið á ábyrgð. Menn hafi gert sitt besta og þeim verið treyst. En stundum hafi verið gerð mistök en það hafi verið þannig. Í dag fari mál frekar fyrir dómstóla og það reyni á ábyrgðir.
Krafa um ótakmarkaða ábyrgð
Hann segir þetta í raun eðlilega þróun. Það sé meiri samkeppni og það sé eðlilegt að það séu í gildi reglur og ábyrgðir sem reyni stundum á.
„Það sem við höfum verið að gagnrýna er svo að það hafa verið gerðar kröfur um endalausa ábyrgð. Að það séu engin þök á því hvað ráðgjafafyrirtæki gæti þurft að greiða í bætur,“ segir Reynir. Það geti verið mistök í eftirliti og hönnun.
Hann segir það ekki ganga að hafa ótakmarkaða ábyrgð.
Hann tekur dæmi um stíflu sem er verið að hanna við virkjun. Verkefnið sé ekki flókið sjálft þó stíflan sé sjálf. Að hanna stífluna sé í raun fljótgert en ef hún klikki svo sé það gífurlegt tjón.
Fyrirtæki með tíu starfsmenn sem vinni við það að hanna stíflur muni alltaf eiga erfitt með að ganga í ábyrgð fyrr slíkt tjón. Þegar eitthvað fari úrskeiðis, eins og ef stíflan myndi bresta, sé yfirleitt ekki bara einn þáttur sem hafi farið úrskeiðis. Það séu margir samverkandi þættir. Þó svo að það sé hægt að greina hvað kom fyrir sé ekki endilega einn aðili ábyrgur fyrir því.
„Þetta verður stundum ekki eins einfalt og við myndum vilja hafa það,“ segir hann og að oft sé það samstarfið sem sé að klikka en ekki einfaldir hlutir í hönnun. Viðtalið er hægt að hlusta á i heild sinni hér að ofan.