Körfubolti

„Þegar þú gerir ekkert í hópverkefninu en færð samt A“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyrese Haliburton (til vinstri) sat aðallega á bekknum á Ólympíuleikunum.
Tyrese Haliburton (til vinstri) sat aðallega á bekknum á Ólympíuleikunum. getty/Liu Nan

Körfuboltamaðurinn Tyrese Haliburton var hluti af sigurliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum og fékk að sjálfsögðu gullmedalíu, þrátt fyrir að hafa fengið fá tækifæri á leikunum.

Bandaríkin sigruðu heimalið Frakklands, 98-87, í úrslitaleik Ólympíuleikanna í gær og unnu þar með gullverðlaunin fimmta skiptið í röð.

Haliburton kom ekkert við sögu í leiknum í gær og raunar spilaði hann aðeins samtals 26 mínútur á Ólympíuleikunum. Hann sá samt spaugilegu hliðina á þessum fáu tækifærum sem hann fékk á leikunum í færslu á Twitter eftir úrslitaleikinn í gær.

„Þegar þú gerir ekkert í hópverkefninu en færð samt A,“ skrifaði Haliburton við mynd af sér með gullmedalíuna.

Haliburton, sem er 24 ára, lék afar vel með Indiana Pacers á síðasta tímabili. Liðið komst alla leið í úrslit Austurdeildar NBA þar sem það tapaði fyrir Boston Celtics.

Á síðasta tímabili var Haliburton með 20,1 stig, 3,9 fráköst og 10,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Enginn leikmaður í NBA gaf fleiri stoðsendingar en hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×