Fótbolti

Gummi Hreiðars og John O'Shea verða Heimi til halds og trausts

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson er kominn með öflugt teymi sem nýr aðalþjálfari írska landsliðsins.
Heimir Hallgrímsson er kominn með öflugt teymi sem nýr aðalþjálfari írska landsliðsins. Getty/Seb Daly

Heimir Hallgrímsson hefur nú staðfest hvaða aðstoðarmenn hann verður með sem aðalþjálfari írska karlalandsliðsins í fótbolta og hann þekkir einn þeirra alveg sérstaklega vel.

Heimir hefur nefnilega fengið Guðmund Hreiðarsson til að vera markmannsþjálfari og þannig sameina þeir Heimir krafta sína á ný, rétt eins og hjá jamaíska og íslenska landsliðinu.

Heimir setti það sömuleiðis í forgang að fá John O‘Shea, fyrrverandi leikmann Manchester United til margra ára, í þjálfarateymið. O‘Shea stýrði írska liðinu tímabundið, í leikjum í mars og júní, og verður aðstoðarþjálfari.

Paddy McCarthy verður einnig aðstoðarþjálfari en mun áfram sinna starfi sínu sem einn af þjálfurum enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace.

Fyrstu leikir Íra undir stjórn þessa teymis verða í Þjóðadeildinni í næsta mánuði, þegar Írland mætir Englandi 7. september og Grikklandi þremur dögum síðar.

„Það var algjört forgangsatriði hjá mér þegar ég kom til sambandsins að hafa John í starfsteyminu,“ segir Heimir á heimasíðu írska knattspyrnusambandsins og bætir við: „Ég ferðaðist til Waterford við fyrsta tækifæri til þess að setjast niður mðe honum og ræða um hlutverk hans. Það kom í ljós að hugmyndir okkar og framtíðarsýn ríma mjög vel saman, og það er stórkostlegt að hann hafi samþykkt að verða aðstoðarþjálfari.“

„Paddy hefur líka samþykkt að halda áfram vinnu sinni með liðinu og öll reynslan sem hann býr yfir verður áfram ómetanleg fyrir liðið. Guðmundur hefur verið mikilvægur hlekkur í þjálfarateymi mínu allan minn feril og ég er himinlifandi með það að hann starfi áfram með mér á Írlandi. Vinnan er þegar hafinn og allur fókus er á leikina við England og Grikkland í september,“ segir Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×