„Ég gerði mistök fyrir tíu árum síðan. Ég verð að taka afleiðingum þess,“ sagði Van de Velde í fyrsta viðtalinu eftir Ólympíuleikana, samkvæmt Telegraaf.
Van de Velde var 19 ára gamall þegar hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga 12 ára breskri stúlku. Eftir að hann losnaði úr fangelsi hélt hann áfram að spila strandblak og komst inn á leikana í París.
Ákvörðun Hollendinga um að leyfa Van de Velde að keppa hlaut mikla gagnrýni og baulað var kröftuglega á hann við keppni á leikunum.
„Ef að íþróttamaður eða þjálfari væri með eitthvað svona mál á bakinu þá hefði hann ekki fengið að vera í okkar liði,“ sagði til að mynda Anna Meares, formaður ástralska ólympíusambandsins.
Sobbing child rapist Steven van de Velde breaks silence after being booed at the Olympics https://t.co/YMBd0cUsdL
— LBC News (@LBCNews) August 13, 2024
Van de Velde felldi tár í viðtalinu sem birt var í dag og sagði fólk hafa gengið of langt með því að ásækja fjölskyldumeðlimi hans.
„Ég gerði mistök fyrir tíu árum og verð að taka afleiðingum þess. En það er of langt gengið að ráðast á fólkið í kringum mig, alveg sama hvort það er Matthew [Immer, liðsfélagi], konan mín eða barnið mitt,“ sagði Van de Velde og viðurkenndi að hafa íhugað að hætta við leikana.
„Það komu svo sannarlega augnablik þar sem ég hugsaði með mér; er þetta virkilega þess virði?“
Van de Velde og Immer komust í 16-liða úrslit á leikunum en töpuðu þar fyrir Brasilíu. Van de Velde dvaldi ekki í ólympíuþorpinu líkt og langflestir keppendur heldur á ótilgreindum stað, og þá var hann ekki skyldaður til að mæta í viðtöl eins og aðrir.