Fótbolti

„Við erum bikar­meistarar þannig það skiptir ekki máli“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir fagnar marki sínu í kvöld.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði fyrra mark Vals er liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna með 2-1 sigri gegn Breiðabliki í kvöld.

„Þetta er bara geggjuð tilfinning. Við ætluðum að landa þessum titli og gerðum það eins og alltaf,“ sagði afar kát Guðrún Elísabet í leikslok.

Hún var greinilega full sjálfstrausts eftir leikinn og sagðist alltaf hafa vitað að hún myndi skora.

„Það var geggjað. Ég vissi að ég myndi skora í dag og síðan sá ég hann bara inni. Ég vissi ekki einu sinni hvað ég var að gera. Ég fagnaði bara eitthvað.“

Gúðrun segist þó ekkert hafa verið að velta sér upp úr færinu sem Blikar fengu örfáum augnablikum áður þar sem Valsliðið bjargaði á línu.

„Ég man ekki einu sinni eftir því færi,“ sagði Guðrún og hló.

Hún bætir einnig við að það hafi verið mikill léttir að sjá Jasmín Erlu bæta öðru marki liðsins við þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.

„Ég allavega sat á bekknum og mér létti mjög mikið við að sjá seinna markið. Þannig ég gat slakað aðeins. Auðvitað var pirrandi að fá þetta mark á okkur í lokin, en við erum bikarmeistarar þannig það skiptir ekki máli.“

„Það er eitthvað extra sætt að skora í svona leik. Og svo var Jasmín bara sultuslök þarna í lokin og lagði hann í fjær. Ég sá hann alltaf inni,“ sagði Guðrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×