Íslenski boltinn

Ólafur Karl þénaði mest af leik­mönnum Bestu deildarinnar í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Karl Finsen lék með Fylki í fyrra.
Ólafur Karl Finsen lék með Fylki í fyrra. vísir/diego

Fimm leikmenn sem spiluðu í Bestu deild karla á síðasta tímabili þénuðu milljón eða meira á mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Ólafur Karl Finsen, sem lék með Fylki í fyrra og leikur með Val í dag, var tekjuhæstur af leikmönnum Bestu deildar karla á síðasta ári. Ólafur Karl þénaði 1,25 milljón á mánuði.

Næstur þar á eftir kemur Stjörnumaðurinn Heiðar Ægisson en hann var með rúmlega 1,2 milljón á mánuði.

Í 3. sæti á listanum yfir tekjuhæstu leikmenn Bestu deildar karla 2023 var Blikinn Damir Muminovic með 1,2 milljón á mánuði. 

Samherji hans hjá Breiðabliki, Viktor Karl Einarsson, var með rúma milljón á mánuði. Haukur Páll Sigurðsson, sem lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og gerðist aðstoðarþjálfari Vals, var síðan með rétt rúmlega milljón á mánuði í fyrra.

Tekjuhæstu leikmenn Bestu deildar karla 2023

  1. Ólafur Karl Finsen - 1,251 milljón á mánuði
  2. Heiðar Ægisson - 1,229
  3. Damir Muminovic - 1,199
  4. Viktor Karl Einarsson - 1,079
  5. Haukur Páll Sigurðsson - 1,006
  6. Orri Sigurður Ómarsson - 983 þúsund
  7. Davíð Örn Atlason - 913
  8. Andri Rafn Yeoman - 880
  9. Kristinn Jónsson - 867
  10. Birkir Már Sævarsson - 834

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2022 sem var greiddur árið 2023.

Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Verktakagreiðslur flokkast ekki sem útsvarsskyldar tekjur og eru því ekki teknar fyrir í álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem Tekjublaðið styðst við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×