Áhyggjur hafa vaknað af nýju afbrigði mpox-veirunnar sem virðist smitast greiðar við náið samneyti en eldri afbrigði. Veirusýkingin er yfirleitt væg en getur þó dregið sjúklinga til dauða. Faraldur sem blossaði upp í Afríku hefur dreift úr sér og greindist tilfelli í Svíþjóð í síðustu viku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandið vegna nýja afbrigðisins.
Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu, reyndi að sefa áhyggjur þeirra sem óttast nýjan heimsfaraldur eftir kórónuveirufaraldurinn sem fór um heiminn fyrir fjórum árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Um hundrað ný tifelli mpox greinist nú í Evrópu á mánuði.
„Við getum og við verðum að taka á mpox saman,“ sagði Kluge sem lagði áherslu á að mpox-veiran væri ólík kórónuveirunni sem kostaði milljónir mannslífa.
Spurning væri hvort heimsbyggðin brygðist við með því að ná tökum á mpox og útrýma veirunni á heimsvísu eða með óðagoti og vanrækslu.
„Það hvernig við bregðumst við núna og á komandi árum verður mikilvæg prófraun fyrir Evrópu og heimsbyggðina,“ sagði Kluge við fréttafólk í dag.
Mpox-veiran smitast við náið líkamlegt samneyti, þar á meðal við kynmök. Engar vísbendingar eru um að veiran smitist með lofti, ólíkt COVID-19.