Sport

Til í keppni ef hlaupið er lög­legt og milljónir dollara fást fyrir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tyreek Hill er leikmaður Miami Dolphins og Noah Lyles er hraðasti hundrað metra hlaupari heims.
Tyreek Hill er leikmaður Miami Dolphins og Noah Lyles er hraðasti hundrað metra hlaupari heims. getty / fotojet

Noah Lyles er til í að keppa við Tyreek Hill í hundrað metra spretthlaupi, en bara ef hlaupið fer löglega fram á hlaupabraut og hann fær margar milljónir dollara fyrir.

„Ef einhver er til í að kosta þennan viðburð og við keppum upp á margar milljónir dollara, og þetta er á braut, og við hlaupum hundrað metra, þá er ég til. Þetta þarf að vera gert almennilega, gilt og gott hlaup. Þú [Tyreek Hill] ert að keppa á móti manni sem hefur lagt hart að sér til að öðlast titilinn hraðasti maður heims, þú hefur getið þér orð sem flottur fótboltaleikmaður, en þú færð ekki að taka þetta stökk bara því þú ert frábær í fótbolta,“ sagði Lyles og átti við að slíkur væri heiðurinn fyrir Hill að fá spretthlaupakeppni gegn honum.

Hill og Lyles hafa átt í opinberum samskiptum gegnum internetið síðan Lyles vann gull í hundrað metra hlaupi á Ólympíuleikunum í byrjun mánaðar. Hill hefur skorað á Lyles að keppa við sig í spretthlaupi en nú nýlegast vildi hann að það yrði fimmtíu stiku hlaup.

Hill býr yfir ógnarhraða, sem varnarmenn NFL deildarinnar hafa fengið að kynnast. Hann hefur einnig keppt í spretthlaupi og vann 60 metra hlaup í Bandaríkjunum í aldursflokki 25-29 ára, á tímanum 6,70 sekúndur sem gerði hann að 213. hraðasta manni heims árið 2023.

Hann hefur hins vegar hraðast hlaupið hundrað metra á 10,19 sekúndum. Lyles vann gullið á ÓL með hundrað metra hlaupi á 9,79 sekúndum.

Það verður því að þykjast ansi ólíklegt að Hill eigi séns í Lyles á hundrað metra braut, en mögulega ef hún yrði styttri líkt og hann lagði til.

Lyles virðist þó ekki vilja keppa á styttri braut. Hvort eitthvað verði af stóru orðunum á því eftir að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×