„Núna er bara verið að leita bara upprunans. Það liggur í raun ekkert fyrir, en það er ósennilegt að það sé í vatnslindum á svæðinu,“ segir Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála og fasteigna hjá Ferðafélagi Íslands.
„Tiltölulega nýlega var vatnssýnataka sem sýnir að það er bara mjög hreint og gott vatn. Veikindin sýna þau einkenni líka, að það er eitthvað annars konar sem er að breiðast út þarna.“
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa einkenni hinna veiku meðal annars lýst sér í uppköstum og niðurgangi.

Eftitlitið á kafi
Greint var frá smitinu í morgun. Þá var ljóst að hátt í fimmtíu skólabörn, ásamt starfsólki, hefði veikst. Björgunarsveitir voru kallaðar út til að ferja hópinn frá skálum Ferðafélagsins í Emstrubotnum. Þegar hópurinn kom að Hvolsvelli héldu áfram að berast tilkynningar um veikindi á neðanverðum Laugarveginum, meðal annars í Básum og í Þórsmörk.
Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir í samtali við fréttastofu fram séu komnar vísbendingar um hvers konar veikindi sé að ræða, en hún vildi ekki tjá sig að svo stöddu.
„En ég vil ekki setja einhverjar getgátur út í loftið,“ segir Sigrún. „Við erum bara á kafi í aðgerðum,“ segir Sigrún. Stýrihópur fundar þessa stundina um málið.
Skálum ekki lokað
Stefán Jökull segir að Ferðafélagið vinni sömuleiðis hörðum höndum að þrifum og sóttvörnum á svæðinu.
„Eðlileg viðbrögð við svona flensum. Það er verið að bæta í þrifin og sérstaklega farið yfir sameiginlega fleti. Salerni og þess háttar, tvisvar þrisvar á dag á meðan við finnum út úr upprunanum.“
Verður skálunum lokað?
„Nei þeim verður ekki lokað.“
Er það skynsamlegt, í ljósi aðstæðna?
„Algjörlega, það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé tengt skálunum eða tengt vatnsneyslu.“