Fótbolti

Inter vann öruggan sigur gegn Íslendingaliði Lecce

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hakan Calhanoglu gulltryggði sigur Inter.
Hakan Calhanoglu gulltryggði sigur Inter. Marco Luzzani/Getty Images

Ítalíumeistarar Inter Milan vann öruggan 2-0 sigur er liðið tók á móti Íslendingaliði Lecce í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Það var Matteo Darmian sem kom Inter í forystu strax á fimmtu mínútu leiksins eftir undirbúning frá Mehdi Taremi áður en Hakan Calhanoglu tryggði heimamönnum 2-0 sigur með marki af vítapunktinum á 69. mínútu.

Þetta var fyrsti sigur ítölsku meistaranna á tímabilinu og er liðið nú með fjögur stig eftir tvo leiki. Þórir Jóhann Helgason og félagar hans í Lecce eru hins vegar enn án stiga, en Þórir sat á bekknum í allt kvöld.

Þá var einnig leikið í neðri deildum ítalska boltans í kvöld og þar voru einnig nokkrir Íslendingar í eldlínunni.

Í B-deildinni máttu Birkir Bjarnason og félagar hans í Brescia þola 0-1 tap gegn Cittadella, en í C-deildinni unnu Kristófer Jónsson, Stígur Diljan Þórðarson og félagar þeirra í Triestina 3-0 sigur gegn Arzignano. Að lokum var Adam Ægir Pálsson í byrjunarliði Perugia er liðið gerði 3-3 jafntefli gegn Pianese.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×