Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Vakna undantekningalaust milli klukkan sex og sjö á morgnana. Það eru tvær mennskar vekjaraklukkur á heimilinu sem sjá til þess. Ein fjögurra ára og ein eins árs.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fara fram með börnin og gefa þeim að borða. Skipta um bleyju á þeirri yngri og rökræða við þá eldri um hvaða föt hún á að fara í á leikskólann. Ef ég er ekki nægilega undirbúinn þá lít ég lægra haldi í þeim rökræðum.
Áður en ég legg af stað út í daginn þá kem ég konunni minni fram úr rúminu.
Hún er mun minni morgunmanneskja en ég. Segir mér reglulega að það sé of snemmt fyrir fíflaganginn í mér á morgnana.
Annars byrja ég á því að skutla í leikskólann og bruna síðan í vinnu. Ég tek yfirleitt góðan rúnt yfir vefmiðlana áður en ég byrja á verkefnum dagsins.“
Á mælikvarðanum 1-10; hversu vel stendur þú þig í heimilisstörfunum?
Ég tel að ég standi mig heilt yfir nokkuð vel.
Í gegnum árin hefur myndast bæði formleg og óformleg verkaskipting á heimilinu.
Konan mín eldar og ég geng frá. Ég tek bensín og konan klippir neglurnar á börnunum; Konan mín forðast eins og heitan eldinn að taka bensín og ég er skíthræddur að meiða börnin þegar ég klippi á þeim neglurnar!
Við sinnum þvottinum, heimilisþrifum og uppeldinu nokkuð jafnt.
Ég held að 7-7,5 sé nokkuð sanngjörn einkunn. Ég fer í 50% fæðingarorolof um mánaðarmótin, þannig ég trúi því að ég nái að hækka einkunnina upp 8,5.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Mikið af spennandi verkefnum framundan hjá auglýsingastofunni TVIST. Sennilega stærsta verkefnið sem er framundan er Bleika slaufan í október en undirbúningur í kringum hana er í fullum gangi. Við erum að starfa náið með Póstinum, Strætó, Origo, Creditinfo og fleiri vörumerki. Allt mjög fjölbreytt og skapandi verkefni.
Í verkefnum utan vinnu, þá erum við hjónin að selja fasteignina okkar sem við höfum búið í yfir síðastliðin fjögur ár. Þetta er falleg fjögurra ra herbergja íbúð í nýju Vogabyggðinni.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Á Tvist notum við stafrænar lausnir á borð við Asana, Harvest og Slack í okkar vinnu.
Þessar lausnir hjálpa okkur að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem eru í gangi og hvaða skilafrestur er á þeim. Við erum einnig með tvo öfluga verkefnastjóra sem halda manni á tánum.
Ég nota einnig Notes gríðarlega mikið í tölvunni minni, en þar glósa ég yfirleitt allar hugmyndir og upplýsingar sem tengjast viðkomandi verkefni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að vera alltaf kominn upp í rúm í síðasta lagi klukkan tíu en á það til að gleyma mér svolítið yfir sjónvarpinu eða símanum. Þannig ég er yfirleitt að sofna milli klukkan ellefu og hálf tólf. Stundum seinna sem kemur yfirleitt alltaf í bakið á mér morguninn eftir.