Innlent

Þrjár skriður féllu á Barða­strönd

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skriðurnar féllu milli Miðhlíðar Ytri og Innri-Múla á Barðaströnd. Myndin er af Brjánslæk.
Skriðurnar féllu milli Miðhlíðar Ytri og Innri-Múla á Barðaströnd. Myndin er af Brjánslæk. Vísir

Þrjár skriður féllu í hlíð milli bæjanna Miðhlíðar Ytri og Innri-Múla á Barðaströnd í nótt. Skriðusérfræðingur væntir þess að frekari fregnir af skriðuföllum berist þegar líður á morguninn, þegar er orðið almennilega bjart.

Gular veðurviðvaranir eru í gildi á sunnan- og vestanverðu landinu vegna úrkomu. Þær hafa verið í gildi á Vesturlandi og Vestfjörðum síðan í gær og jarðvegurinn því víða orðinn gegnsósa. 

Esther Hlíðar Jensen, skriðusérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að mest úrkoma hafi mælst í Grundarfirði á Snæfellsnesi. 

„Langmesta úrkoman er þar. Hún er komin yfir 170 millimetra,“ segir Esther. 

„Ég er ekki með tölurnar fyrir Grundarfjörð sérstaklega en þetta er mjög mikil úrkoma. Það sem við horfum á sem úrkomusamt, þar eru 100 mm svolítið mikið á sólarhring. Þetta er komið vel yfir það.“

Viðvaranirnar eru í gildi fram yfir hádegi á morgun. 

„Það mun stytta upp öðru hverju en svo munu koma dembur. Það er ekki alveg ljóst hvar þær lenda en það má búast við að það verði dembur fram á annað kvöld.“

Auk skriðufalla má búast við talsverðum vatnavöxtum í lækjum og ám.


Tengdar fréttir

Gular viðvaranir vegna úrkomu fram á morgun

Gular viðvaranir eru í gildi á öllu sunnan- og vestanverðu landinu auk miðhálendis fram á morgun. Er það vegna mikillar úrkomu, sem eykur hættu á flóðum og skriðuöllum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×