Erlent

Rúm­lega hundrað köfnuðu eða krömdust við flótta­til­raun

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar fylgjast með störfum öryggissveita við fangelsið.
Íbúar fylgjast með störfum öryggissveita við fangelsið. AP

Yfirvöld í Austur-Kongó segja að minnst 129 fangar hafi látið lífið við að reyna að strjúka úr fangelsi í Kinshasa, höfuðborg landsins, á aðfaranótt sunnudags. Minnst 59 eru sagðir slasaðir og segjast yfirvöld hafa náð tökum á ástandinu.

Jacquemin Shabani, innanríkisráðherra, segir að 24 fangar hafi verið skotnir til bana af vörðum en flestir aðrir hefðu kafnað eða kramist í örtröðinni sem myndaðist þegar fangarnir reyndu að flýja, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Umrætt fangelsi er það stærsta í landinu en árið 2017 flúðu þaðan rúmlega fjögur þúsund fangar. Það er hannað til að hýsa um 1.500 fanga en talið er að rúmlega fjórtán þúsund menn hafi setið þar inni.

Konum er einnig haldið í fangelsinu og Shabani hefur sagt að einhverjum konum hafi verið nauðgað, án þess þó að segja nánar frá því hve mörg fórnarlömbin voru.

Íbúar í hverfinu þar sem fangelsið er segjast hafa vaknað við skothríð um kvöldið og fólk sem blaðamenn hafa rætt við segja að einhverjum hafi tekist að strjúka úr fangelsinu en það hefur ekki verið staðfest af yfirvöldum.

Þess í stað hefur Reuters eftir embættismanni að engum hafi tekist að flýja. Þeir sem hafi reynt það hafi verið skotnir til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×