Enski boltinn

Enska liðið missir þrjá öfluga menn fyrir leikinn á móti Heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ollie Watkins og Cole Palmer fagna saman marki með enska landsliðinu á EM. Þeir verða ekki með á móti Írlandi.
Ollie Watkins og Cole Palmer fagna saman marki með enska landsliðinu á EM. Þeir verða ekki með á móti Írlandi. Getty/Ian MacNicol

Cole Palmer, Ollie Watkins og Phil Foden hafa allir þurft að draga sig út úr enska landsliðshópnum fyrir fyrstu leiki liðsins í Þjóðadeildinni.

Enska liðið mætir lærisveinum Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu í Dublin 7. september næstkomandi en það er fyrsti leikur írska liðsins undir stjórn Eyjamannsins.

Enska landsliðið er þarna að missa þrjá öfluga sóknarmenn en allir þrír voru í hópi bestu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Palmer og Watkins eru báðir að glíma við meiðsli og hafa farið til sinna félaga í endurhæfingu. Foden kom aldrei til móts við landsliðið vegna veikinda og nú er ljóst að hann verður ekkert með.

Lee Carsley hefur tekið tímabundið við enska landsliðinu eftir að Gareth Soutgate hætti með liðið eftir Evrópumótið.

Auk þess að spila útileikinn við Írland þá fær enska landsliðið einnig Finnland í heimsókn á Wembley þremur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×