Borgarstjóri Lviv segir að Rússar hafi látið til skarar skríða með drónum og ofurhljóðfráum flugskeytum.
Á meðal hinna látnu er 14 ára gömul stúlka, ungabarn og kona sem var við störf sem ljósmóðir á spítala þegar sprengjurnar féllu.
Úkraínumenn eru enn í sárum eftir árásir gærdagsins, þegar ráðist var á herskóla í miðhluta landsins þar sem að minnsta kosti 50 létu lífið. Þá bárust einnig í morgun fregnir af árásum á höfuðborgina Kænugarð auk þess sem fimm eru særðir eftir að sprengjur féllu á íbúðarblokk í borginni Kryvyi Rih.
Ruslan Stefanchuk, forseti úkraínska þingsins, greindi frá því í morgun að utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba hefði sagt af sér. Svo virðist sem mikil endurstokkun sé í uppsiglingu innan ríkisstjórnarinnar en fleiri ráðherra hafa sagt af sér að undanförnu.
Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti sagði í ávarpi í gærkvöldi að breytingarnar yrðu til þess að styrkja ríkisstjórnina. Úkraínumenn þyrftu að fara sterkir inn í haustið og það kallaði á mannabreytingar.
Fregnir herma að allt að helmingi ráðherra verði skipt út en að þeir gætu fengið ný hlutverk í endurnýjaðri stjórn.