Lífið

Opnar sig í mynd­bandi: Hefur lokið lyfja­með­ferð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hjónin í myndbandinu.
Hjónin í myndbandinu.

Katrín Middleton prinsessa af Wales hefur lokið lyfjameðferð. Hún segist nú ætla að einbeita sér að því að halda sér heilbrigðri.

Þetta kemur fram í myndbandsávarpi frá prinsessunni sem hún birtir á samfélagsmiðlum. Ávarpið er birt rúmum sex mánuðum eftir að hún greindi frá því að hún væri komin með krabbamein. Gríðarleg umræða hafði fyrir það skapast um fjarveru prinsessunnar frá opinberu vettvangi.

„Þessi tími hefur mest af öllu minnt mig og Vilhjálm á að endurskoða lífið í sífellu og vera þakklát fyrir einföldu en mikilvægu hlutina í lífinu, sem svo mörg okkar tökum oft sem gefnum hlut. Að einfaldlega elska og vera elskuð,“ segir prinsessan meðal annars í ávarpinu.

Samkvæmt umfjöllun breskra miðla var myndbandið tekið upp í Norfolk í Bretlandi í síðasta mánuði. Þar má sjá þau Katrínu og Vilhjálm að leik ásamt börnum sínum í lautarferð og á ströndinni. Þá sjást foreldrar Katrínar, þau Carole og Michael Middleton einnig.

Athygli vekur að sögn breskra miðla hve innileg fjölskyldan er í myndbandinu. Þar sést Vilhjálmur meðal annars kyssa Katrínu á kinnina. Samkvæmt breskum miðlum mun Katrín halda áfram að vinna verkefni sín heima fyrir næstu mánuði.

Í myndbandinu þakkar prinsessan sérstaklega fyrir þann samhug sem hún hafi fundið fyrir um heim allan eftir að hún greindi frá því að hún væri með krabbamein í mars síðastliðnum. „Til allra þeirra sem enn eru í sinni eigin baráttu gegn krabbameini, vil ég að þið vitið að ég stend með ykkur, hlið við hlið, hönd í hönd.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.