Lífið

Frestar öllum tón­leikum vegna hrakandi heilsu

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Donald Glover, einnig þekktur sem Childish Gambino.
Donald Glover, einnig þekktur sem Childish Gambino. Getty/Rodin Eckenroth

Tónlistarmaðurinn Donald Glover, einnig þekktur sem Childish Gambino, tilkynnti fyrr í kvöld að hann neyðist til að fresta öllum fyrirhuguðum tónleikum sínum í Norður-Ameríku vegna hrakandi líkamlegrar heilsu.

Söngvarinn og leikarinn greindi frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum X og ítrekaði að aðeins væri um tímabundið mál að ræða. Söngvarinn er þekktastur fyrir lög á borð við Redbone, 3005, Heartbeat og Feels like Summer. Margir kannast einnig við stjörnuna af skjánum en hann gerði garðinn frægan sem Troy Barnes í Community, Simba í The Lion King og Lando Calrissian í Solo: A Star Wars Story.

„Ég þarf að fresta tónleikaferðinni til að einbeita mér að líkamlegri heilsu minni í nokkrar vikur. Haldið í miðana ykkar. Allir miðar munu gilda á komandi tónleika í Norður-Ameríku þegar nýjar dagsetningar liggja fyrir.“

Ákvörðunin hefur áhrif á sextán tónleika sem voru fram undan. Hann þakkaði aðdáendum sínum fyrir að virða friðhelgi einkalífs síns og fyrir stuðninginn. „Takk fyrir ástina,“ sagði söngvarinn víðfrægi í lok færslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.