Málið er ekki að finna á dagskrá héraðsdóms en þinghald í málinu er lokað. Albert er ákærður fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu á þrítugsaldri án hennar samþykkis. Í ákærunni segir að Albert hafi beitt nauðung en upplýsingar um hvernig hann á að hafa gert það eru afmáðar í útgáfu ákærunnar sem fréttastofa fékk frá héraðsdómi.
Neitar sök
Verjandi Alberts neitaði sök fyrir hönd skjólstæðings síns þegar ákæran var þingfest í héraði þann 3. júlí. Samkvæmt heimildum fréttastofu er reiknað með því að aðalmeðferðin taki tvo daga vegna mikils fjölda vitna sem ákæruvaldið ætlar að kalla fyrir dóminn.
Spilar ekki fyrir landsliðið en spilar fyrir stórlið
Albert hefur ekki verið valinn í landslið Íslands í knattspyrnu á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum, í samræmi við reglur Knattspyrnusambands Íslands
Hann var í sumar keyptur til Fiorentina frá Genoa. Fiorentina greiðir átta milljónir evra, rúman milljarð króna, fyrir að fá Albert að láni og kaupverðið verður sautján milljónir evra, tæplega 2,6 milljarðar króna, gangi hann alfarið til liðs við Flórensliðið næsta sumar.
Honum var úthlutuð treyja númer tíu á dögunum en á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið. Hann hefur glímt við meiðsli á kálfa.