Fótbolti

Spilar hundraðasta lands­leikinn í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kane fagnar með Jude Bellingham á EM í sumar.
Kane fagnar með Jude Bellingham á EM í sumar. Getty

Harry Kane verður að líkindum tíundi leikmaður karlalandsliðs Englands til að spila hundrað landsleiki. Hann kemst í góðan félagsskap.

Harry Kane er 31 árs gamall og þreytti frumraun sína árið 2015. Hann er markahæstur í sögu enska landsliðsins með 66 mörk í 99 landsleikjum.

England mætir Finnlandi á Wembley í Lundúnum í Þjóðadeildinni í kvöld og má fastlega gera ráð fyrir að landsliðsfyrirliðinn muni þar spila sinn hundraðasta landsleik.

Kane verður þá tíundi karlmaðurinn til að spila hundrað leiki fyrir Englands hönd. Ekki þykir ólíklegt að hann bæti landsleikjamet Peters Shilton, sem spilaði 125 landsleiki.

Kane fer í hóp með Wayne Rooney (120), David Beckham (115), Steven Gerrard (114), Bobby Moore (108), Ashley Cole (107), Bobby Charlton (106), Frank Lampard (106) og Billy Wright (105) sem hafa spilað hundrað landsleiki eða fleiri.

Í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, segist Kane vera stoltur af afrekinu en næsta markmið sé að skora hundrað mörk fyrir landsliðið. Þar vantar 34 stykki upp á.

Leikur Englands og Finnlands hefst klukkan 18:45 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×