Í tilkynningu á vef Landsbankans segir að húsnæðisliðurinn og útsölulok á fötum og skóm hafi mest áhrif til hækkunar. Til lækkunar að þessu sinni sé það matarkarfan, flugfargjöld til útlanda og bensín. Auk þess muni gjaldfrjálsar skólamáltíðir valda því að liðurinn hótel og veitingastaðir lækki nokkuð.
Minni verðbólgu spáð nú en eftir síðustu mælingu
Samkvæmt skammtímaspá deildarinnar muni vísitala neysluverðs hækka um 0,23 prósent í október, standa óbreytt í nóvember og hækka um 0,32 prósent í desember.
Gangi spáin eftir verði verðbólga 5,3 prósent í október og 4,9 prósent í nóvember og desember. Spáin sé aðeins lægri en síðasta spá sem birt var í kjölfar þess að Hagstofan birti ágústmælingu vísitölu neysluverðs.
Munurinn skýrist aðallega af því að verðmælingar deildarinnar á bensíni og á mat og drykkjarvörum hafi verið nokkuð lægri en búist var við. Á móti geri deildin ráð fyrir aðeins veikari gengi.
Íslandsbanki spáir líka minni verðbólgu
Greining Íslandsbanka spáir því sömuleiðis að verðbólga muni hjaðna í september.
Í tilkynningu segir að vissir liðir liti mælinguna þar sem áhrif útsöluloka og lækkun flugfargjalda vegast á. Lægri kostnaður við skólamáltíðir komi einnig við sögu í mánuðinum auk þess sem húsnæðisliður vegur enn þungt til hækkunar.
Greingin spái því að vísitala neysluverðs hækki um 0,1 prósent í september frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir muni tólf mánaða verðbólga hjaðna úr 6,0 prósentum í 5,7 prósent. Samkvæmt spánni muni verðbólga hafa hjaðnað nokkuð hraustlega þegar árið verður liðið í aldanna skaut.
Árvissir liðir vegist á í mælingu septembermánaðar sem verði keimlík ágústmælingunni. Þar sé ekki síst um að ræða áhrif útsöluloka en þau hafi verið með mildara móti í ágúst svo ætla megi að þau teygi sig af meiri krafti inn í september. Á móti vegi árviss lækkun flugfargjalda sem sést jafnan í september eftir háönn sumarsins í ferðaþjónustu.
Hjöðnun verðbólgu muni halda áfram og vera 5,1 prósent í nóvember og desember.