Fótbolti

„Ó­sann­gjarnt“ að kærastinn fái marg­falt meira fyrir sömu vinnu

Sindri Sverrisson skrifar
Alisha Lehmann fagnar sínu fyrsta marki fyrir Juventus eftir komuna frá Aston Villa í sumar.
Alisha Lehmann fagnar sínu fyrsta marki fyrir Juventus eftir komuna frá Aston Villa í sumar. Getty/Juventus FC

Knattspyrnuparið Alisha Lehmann og Douglas Luiz færði sig um set í sumar, frá Aston Villa til Juventus, en óhætt er að segja að launakjör þeirra hjá ítalska risanum, rétt eins og á Englandi, séu gjörólík.

Hin 25 ára gamla Lehmann, sem þegar hefur skorað sitt fyrsta mark fyrir Juventus, tjáði sig um launabilið í samtali við La Repubblica á Ítalíu:

„Ég er ekki stjarna, ég er bara venjuleg manneskja. Ég fer heim og elda, og geri allt það sem að aðrir gera. Eftir æfingar segi ég oft við Douglas hvað þetta sé ósanngjarnt. Við vinnum sömu vinnu en hann fær hundraðþúsund sinnum meira borgað en ég,“ sagði Lehmann.

Ekki er ljóst nákvæmlega hve mikið þau Lehmann og Luiz fá í laun hjá Juventus en hins vegar er ljóst að félagið greiddi 50 milljónir evra fyrir Luiz, á meðan að Lehmann mun hafa kostað um 50.000 evrur, eða þúsund sinnum minna.

Lehmann er hins vegar mun vinsælli á samfélagsmiðlum og með yfir 17 milljónir fylgjenda á Instagram, á meðan að ein og hálf milljón manns fylgir Luiz á sama miðli.

Lehmann, sem er svissnesk landsliðskona og verður því á heimavelli á EM næsta sumar, skoraði í fyrsta deildarleik Juventus fyrr í þessum mánuði, í 6-3 sigri gegn Sassuolo.

Hún verður svo í eldlínunni á miðvikudaginn þegar Juventus mætir PSG í stórleik í umspili um sæti í Meistaradeild Evrópu í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×